29.3.2008 | 14:59
Der erste Tag in Berlin :)
Jæja þá er litla loksins mætt á svæðið!
Fjúff, ferðin í gær byrjaði með látum. Tinna hringdi í mig um hádegið í þvílíkum æsingi og sagði að við yrðum að fara útúr bænum NÚNA þar sem vörubílstjórarnir (ekki vinsælir hjá mér í gær) væru að loka öllum götum í mótmælaskyni. Næsta hálftímann eða svo vorum við í móðursýkiskasti og óttuðumst að missa af fluginu og allt hvaðeina. En allt fór vel og við vorum komnar meira en tímanlega á völlinn. Það var eiginlega fyrst þá sem ég áttaði mig á því að ég væri virkilega að fara til Berlínar..mutterseelenallein! Mjög erfitt að kveðja Tinnu og satt best að segja nokkuð ógnvænlegt að fara aleinn í flugvélina.
Var komin til Berlínar um átta leytið, allt orðið dimmt svo ég sá ekkert af borginni úr lofti nema endalaust ljósflæmi..voða flott samt. Á flugvellinum beið mín ansi vinalegur Þjóðverji sem skutlaði mér heim á Karl-Marx-Allee. Hann talaði næstum stanslaust og mér til mikillar ánægju skildi ég meiri hlutann af því en gat lítið svarað þar sem málstöðvar mínar voru ekki enn tengdar á þýsku.
Húsið mitt er svona "Wohnblock" sem ég ímynda mér að sé frá tímum DDR...ef þið horfið á Goodbye Lenin þá bý ég í húsi eins og aðalpersónurnar þar..voða kósý. Christel (sem ég mun eflaust minnast sem þýsku ömmunnar minnar) tók vel á móti mér, herbergið mitt er voða notalegt, sófi, 2 hægindastólar, sjónvarp og allt sem maður þarf (og þarf jafnvel ekki). Herbergisfélagi minn kemur þó ekki fyrr en í næstu viku en Christel sagði að hún væri frá Sviss og talaði því líka þýsku. Sem sagt ekkert nema þýska á þessu heimili, ef ég verð ekki altalandi eftir þessar 6 vikur þá er ég nú meiri auminginn! Hundurinn (Kessy) er klikkaður, frekar ljótt kvikindi en annars ósköp góðlegt grey. Ég fékk síðan að borða, "amma" vildi ekki heyra á það minnst að ég færi svöng í rúmið. Ég skellti næstum uppúr þegar ég sá matardiskinn..ef þetta var ekki þýskur matur þá veit ég ekki hvað. Fullur diskur af kartöflum, rósakáli og einhverju kjötdóti í brúnni sósu. Ég torgaði þessu að sjálfsögðu ekki öllu en tróð mig út minnug þess sem Elín hafði sagt um gamla Þjóðverja og að leifa mat :/ Mittismálið mun því sennilega ekki minnka þessar 6 vikur..hehe
Dagurinn í dag hefur verið rólegur. Ég hef bara verið að skoða mig um og átta mig aðeins á borginni. Morgunmaturinn samanstóð af hverju? Jújú, "Brötchen", jógúrti og te. Fékk sem betur fer ekki "Wurst" í dag ;) Ég hélt síðan út og rölti að Alexanderplatz sem er bara í ca. 5 mín fjarlægð. Sá Þar er Fernsehturm og alls konar sniðugt dótarí, Rotes Rathaus ofl. Allt mjög merkilegt. Búin að kaupa Fahrkarte fyrir næsta mánuðinn svo ég get hoppað um borð í S-Bahn, U-Bahn, strætó og alles fyrir 70 evrur á mánuði. Það þykir dýrt hér en ég er nokkuð sátt miðað við að í Rvk. þarf að borga svipaðan pening bara fyrir strætó! Ég fór síðan og rölti á Unter den Linden, ótrúlega gaman að vera á stað sem maður lærði um í þýskutímum í den. Mikið af fallegum byggingum en margar af þeim eru í viðgerð svo vinnupallar eru algeng sjón hérna auk byggingarkrana og þess háttar. Labbaði alla leið að Brandenburger Tor..ansi langt en samt ekkert svo miðað við að þetta er risaborg. Veðrið í dag hefur ekki verið upp á marga fiska, nokkuð íslenskt, rigning og skúrir og skítkaldur vindur. Kom síðan heim hundblaut eftir 3 tíma göngutúr en nokkuð ánægð með heimaborg mína næstu 6 vikurnar. Verð samt að viðurkenna að ég er frekar einmana eins og er en það lagast allt þegar ég verð byrjuð í skólanum og herbergisfélaginn mættur á svæðið :) Það örlar þó ekki á Heimweh (heimþrá), ég er þvílíkt hamingjusöm að vera hér en það væri gott að hafa einhvern til að rölta með á Unter den Linden :)
Netið komst síðan í gagnið áðan..okkur Christel gekk lítið að setja það inn enda álíka tæknifatlaðar þó muni rúmum 40 árum í aldri :/ Held það segi nokkuð um mína tæknikunnáttu frekar en hennar. Endaði allavega á því að Christel hringdi í "Enkelsohn" sinn sem var svo elskulegur að skreppa hingað og bjarga málunum. Get því verið dugleg að blogga næstu vikur.
Ætli þetta dugi ekki í dag, ætla líklega að rölta yfir á Museum Insel á morgun og skoða eitthvað af þessum milljón söfnum hér í borg!
Tschüss,
Lára
p.s. Ég lofaði Systu að "keep count" (þú veist hvað ég meina). Tala dagsins í dag er: 5 (þ.á.m. der Enkelsohn;))
Athugasemdir
Gott að heyra að þú hefur komist á leiðarenda:)
Það verður gaman að fylgjast með þér;)
Bjarni Freyr (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 15:08
Okey sko! annaðhvort þarf ég að hafa Valda með mér að lesa bloggið svo að ég skilji e-ð í því EÐA þú setir inn svona þýðingar við ákaflega erfið orð, líkt og gert var við orðið heimþrá
Af því sem ég skildi minnir þetta mikið á fyrstu dagana mína í Montpellier, nema ég skildi ekkert í samræðunum fyrstu dagana, né fyrstu mánuðina
þannig ég gat ekki átt í almennilegum samræðum við konuna sem ég bjó hjá fyrr en ég var flutt út og hitti hana fyrir tilviljun niðrí bæ (eftir svona 3 mánaða dvöl í frakklandi)
En vona að allt gangi vel, mun fylgjast vel með blogginu þínu ... enda gott að fá pásu frá námsbókunum í prófum
Magga (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 16:36
Hæ sæta mín;) Mjög skemmtilegt blogg hjá þér...get ekki beðið að lesa meira!! Ég verð að viðurkenna að ég er mjög abbó hérna heima í kuldanum hehe. Og vá bara strax komnir 5 hehe það lofar góðu hehe
Ég hef reyndar ekki mikið að segja...nema ég sakna ykkar strax voða mikið
Enn ég verð bara að þrauka... einhvernveginn hehe
Hlakka til að lesa meira... 
Systa (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 17:35
hehehe ég var nú bara að djóka með gamla þjóðverja og leifa mat - datt bara í hug að gamlir þjóðverjar væru svipaðir með þetta og gamlir íslendingar. Hvað er herbergisfélaginn þinn að fara að gera fyrst hún er þýskumælandi? Er þetta ekki bara málaskóli þessi skóli sem þú ert í? Fer maður til Berlínar til að læra eitthvað annað en þýsku. Sorry, þarf bara alltaf að spá í einhverju asnalegu.
Gott þér gengur vel að tala við gömlu. Húsið er pottþétt frá tíma DDR. Og ég verð að segja eins og Systa vá stax komnir 5.
Vona að það hætti að ringa hjá þér svo þú getir nú þrammað um allt. Jæja er búin að skrifa heila ritgerð hérna. Nenni ekkert að senda þér e-mail fyrst þú nennir ekkert að senda mér þannig þú færð bara ritgerðir í komment.
Knús frá stóru systur
p.s. sagði þér að þú fengir ekkert að éta nema bratwürst og sauerkraut!
Elín (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 17:20
Hae, fyrst ad komast a netid nuna, er ekki med net heima, gaman ad blogginu tinu:) Sakna tin strax, hafdu tad gott:* ..herbfel minn kemur heldur ekki fyrr en eftir viku:s
Tinna (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 19:50
Ég get ekki svarað þér varðandi verðandi herbergisfélaga minn en skal láta þig vita þegar ég hef hitt hana :) og þessi skóli sem ég er í er bara þýskuskóli svo hún hlýtur að vera að fara að læra deutsch.. btw. ég hef ekki enn fengið bratwurst en er að telja í mig kjark til að prófa currywurst og döner kebab sem á víst að vera lostæti...og já húsið er frá tímum DDR. Las mér til um götuna mína og hún hét víst Stalinstrasse fyrst og arkitektúrinn hér er svo sannarlega í sósíalískum stíl..endalausar blokkir. Þá er fróðleikshorni Láru lokið í dag ;)
Lára Sigurðardóttir, 30.3.2008 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.