23.4.2008 | 19:19
Alles hat ein Ende, nur die Wurst hat zwei
Guten Abend,
Ég þori ekki annað en að skella inn einum snöggum pistli þar sem fólkið virðist þyrsta í blogg. Greinilega bannað að taka sér frí einn og einn dag til að liggja í sólinni. Já, gott fólk þið lásuð rétt: sólinni. Hún hefur loksins ákveðið að staldra við hér í Berlín og gleðja okkur vesalingana. Eins gott því ég var við það að deyja úr kulda og ekki ein um það.
Allavega, í gær gerðist nú ekki mikið. Ég var lengi í skólanum og verð að segja að við eyddum nú mestum tímanum í að horfa löngunaraugum út um gluggann. Sumarið loksins komið og allir þrá að liggja úti í sólinni með tærnar upp í loft. Fékk samt nýjan kennara í gær sem þýddi smá tilbreytingu í skólanum. Ég reyni að vera dugleg að fylgjast með og læra en þar sem ég er bara að þessu til að leika mér sé ég enga ástæðu til að taka þetta alvarlega. Þarf ekki að taka neitt próf eða neitt. Mæti bara í skólann mér til gamans ;) Haha já það er lítill tungumálanörd í hjarta mínu sem verður að fá að njóta sín. Eftir skólann skellti ég mér út í blíðuna, Manon var föst í prófundirbúningi. Ég rölti að Lustgarten (grænn blettur á Museum Insel, við Der Dom og öll söfnin...unglaublich schön) og naut þess að liggja þar í sólinni og lesa umkringd fallegum byggingum (og ítölskum túristum). Síðan hélt ég nú bara heim á leið. Um kvöldið horfðum við á "Spartacus"..Christel á helling af alls konar myndum sem hún lánaði okkur, sem er ágætt til að æfa "Hörverständnis" (skilning á mæltu máli) rétt áður en maður skríður í bólið. Allavega, það er búið að taka þrjú kvöld að horfa á "Spartacus" og enn er hún ekki búin, hef aldrei séð hana áður svo ég veit ekki hvenær hún endar eiginlega...en eins og alltaf skondið að horfa á myndirnar "döbbaðar".
Sólin heiðraði okkar aftur með nærveru sinni í dag og vakti það eintóma kátínu. Eftir skóla fórum við Marie, Nicolas (bekkjarfélagar mínir) á veröndina í skólanum (reykingasvæðið) og sleiktum sólina á meðan við biðum eftir að Manon, Samuel og Vincent yrðu búin í prófinu mikilvæga. Planið var að fara á Kneipe og halda sólarsleikingunni áfram eitthvað fram eftir degi. Röltum að Hauptbahnhof og fórum þar á stað sem stendur við árbakkann, mjög notalegt. Í dag gerðist svo ekkert meira..við sátum þarna frá hálf þrjú til sjö með tærnar upp í loft. Hreint út sagt yndislegt. Þegar heim kom beið okkar Abendessen. Ég veit ekki hvort þið, lesendur góðir, hafið gert ykkur í hugarlund hversu mikið ég borða í kvöldmat jeden Tag (hvern dag). "Amma" skammtar svo mikið á diskana okkar að ef horft er til magns er jólamáltíð hvert einasta kvöld! Sem dæmi get ég nefnt kvöldmat dagsins í dag. Kjúklingur og franskar kartöflur. Á disknum mínum var hálfur kjúklingur og hrúga af frönskum kartöflum. Grænmeti (gúrkur o.s.frv.) til hliðar. Búðingur (í dós) í eftirmat. Hvernig á eðlileg manneskja að geta torgað þessu öllu? En fyrir kurteisissakir troðum við í okkur, annars heldur "amma" að þetta hafi ekki verið gott. Eiginlega er ekki hægt að kalla þetta máltíð, þetta er át. Í kvöld fékk búðingurinn að minnsta kosti að bíða betri tíma þar sem það er bara sérmagi fyrir ís, ekki búðing ;) Ég mun ekki hafa lyst á mat í heila viku þegar ég kem heim og sé safapressuna góðu í hyllingum.
Já, það styttist annars óðum í heimkomu. 16 dagar. Blendnar tilfinningar. Einerseits vil ég ekki yfirgefa Berlín og allt það undursamlega sem hún hefur upp á að bjóða, andererseits langar mig heim í rólegheitin og faðm vina og fjölskyldu. Það verður grátur af sorg og gleði. Ég mun fá menningarsjokk. Nah ja, noch zwei Wochen sem er um að gera að njóta til hins ýtrasta!
Segi þetta gott að sinni, við ætlum að drösla okkur aðeins út í kvöld = die Kleine wird wahrscheinlich ein bisschen müde morgens ;)
Bis später,
Lára með sól í sinni
P.S. Furðusjónin: Jæja, hér í Deutschland er svolítið sem nefnist "Alster". Það er drykkur; bjór blandaður með gosi...já nú hugsa sennilega margir: "oj barasta". En ótrúlegt en satt þá er þetta er ekkert svo slæmt, tilvalið á heitum sumardegi. Drykkjamenning Þjóðverja er sko stórskemmtileg og efni í heila bók.
Athugasemdir
Það er aldeilis máltíðir sem þið fáið þarna í Þýskalandi!! Nur 16 Tage úff það er ekki neitt! Væri til í að smakka þennan bjórdrykk með gosi, blandar það fyrir mig þann 24.;)
Bestu kveðjur frá BCN:p
tu amiga Tinna:)
Tinna (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 19:56
Gott að blíðan er komin í Berlin, hér er rok og rigning núna en það er búið að grænka ótrúlega bara í dag. Ég er sammála Tinnu ekki neinir smá skammtar, gæti haldið að þú værir i USA. Þú færð örugglega frí 23-25 maí, veistu að sænski þjónninn verður aftur í sumar?
Kveðja úr rigningunni.
Anna (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 22:20
hæ gella, hefuru aldrei smakkað bjór blandaðan með sprite? Karen stóra gerði þetta einhvern tíman í körfupartý og ég veit ekki hvert strákarnir ætluðu.
En þetta er bara ágætt alveg.
Elín (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 07:25
Btw. Gleðilegt sumar músin mín!
Elín (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 14:34
nei, að blanda bjór við e-ð hefur mér ekki dottið í hug..en geri það örugglega af og til hér eftir. En í Deutschland hefur þetta sko nafn ;)
Berlínarbúinn (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.