Ein Hund ist nicht lang an eine Bratwurst gebunden.

Guten Morgen,

Mikið er gaman að fá frídag svona rétt í lok vikunnar, geta sofið út og þurfa ekki að fara í skólann. Verst er þó að sólin hefur líka tekið sér frí og sent rigninguna til afleysinga. Kannski er það af hinu góða ef tekið er tillit til þess hvaða dagur er í dag. Eru ekki alltaf minni læti og óeirðir í rigningu? 1. maí er víst ekki óhætt að fara til Kreuzberg (hverfi þar sem margir innflytjendur búa) né Prenzlauer Berg vegna óeirða. Algjört bann er við því að leggja bílum í Kreuzberg í dag og er víst skrítin sjón að sjá hverfið algjörlega bílasnautt. Ég held ég hætti mér nú ekki þangað til að sjá þá furðusjón. Annars eru Berlínarbúar ansi duglegir við mótmæli og verkföll. T.d. var strætó í verkfalli í gær og í fyrradag fór heldur enginn strætó því verkstæðin (hjá strætó) voru í verkfalli og allir bílarnir bilaðir...pósturinn leggur líka alltaf af og til niður vinnu. Þetta er sko stuð.

Annars hafa síðustu daga verið rólegir. Ég hef mætt í skólann þrátt fyrir allt en eiginlega bara vegna þess að ég nenni ekki að hanga ein á meðan allir hinir mæta samviskusamlega í tíma. Skóladagurinn er svo sem ekki langur svo það er nægur tími til að leika eftir hann. Á þriðjudaginn gerði ég ekki mikið. Við Manon uppgötvuðum aðra risaverslunarmiðstöð á Potsdamer Platz (sko alltaf eitthvað nýtt að sjá í Berlín) og héldum í smá skönnunarleiðangur. Í gær fór ég svo með Manon og Émilie í Reichstag (þinghúsið). Yfirleitt er alltaf fáránlega löng röð til að komast inn og oft klukkutíma bið ef ekki meira. En við vorum heppnar og þurftum bara að bíða í tæpan hálftíma. Útsýni af þakinu og "der Kupel" (glerhvolfþakið) er ansi gott en skyggnið var reyndar ekki það besta í gær, gerði svo sem ekki mikið til, það var gaman að þessu engu að síður. 

Eftir þetta skunduðum við heim staðráðnar í að sporna gegn matarskömmtum "ömmu" með smá skokki um hverfið. Jájá hlupum þarna um eins og bjánar í hálftíma, nokkuð ánægðar með okkur og ákváðum að gera þetta á hverjum degi hér eftir. Síðan var kvöldmatur, Schweinebraten með Sauerkraut og Klöse. Klöse er ansi sérstakt, það er einhvers konar kartöflukökur, búnar til úr soðnum kartöflum, hráum kartöflum, eggi og hveiti. Smakkast ekkert sérstaklega vel.. Allavega svo var ávaxtasalat í eftirmat og kemur "amma" ekki með þeyttan rjóma handa okkur á salatið (aldrei gerst áður). Við fórum að hlæja og Manon náði að stama út úr sér: "En við verðum bara feitar af þessu". Amma svaraði þessu með: "Hvaða vitleysa, þetta er bara léttrjómi". 15 mínútum eftir matinn kallaði hún á okkur og við þutum fram í eldhús. Stendur Frauchen þá ekki þar með ís handa okkur. Jahérna ef konan er ekki staðráðin í að fita mann þá veit ég ekki hvað. Um kvöldið fórum við svo í bíó með Camille á mynd sem heitir "Ein Schatz zum Verlieben", veit ekki hvað hún heitir á ensku. Gaman að geta farið í bíó og skilið myndina, við gátum m.a.s. hlegið að bröndurunum og að mínu mati er maður virkilega farinn að skilja þegar maður skilur brandarana.

Jæja, 8 dagar í heimkomu. Ég er svo einstaklega heppin með heimfarardag eða þannig. Einmitt sama dag og ég fer byrjar nefnilega "Karneval der Kulturen", svaka húllumhæ og hátíð sem stendur yfir alla hvítasunnuhelgina. Frábært að missa af því :( En á móti kemur að ég get skemmt mér í félagsskap góðra vina og talað íslensku allan daginn :) Eflaust verður það ansi þýskuskotin íslenska fyrstu dagana..þið munuð án efa heyra orð á borð við: echt, wirklich, Mensch og Schade oftar en ykkur langar til :) 

Jæja, ágætt í dag. Verið nú dugleg að kommenta á lokasprettinum ;) Til allra þeirra sem eru í prófalestri og prófum: Gangi ykkur súpervel, sendi ykkur góða strauma frá Berlín! Wir sehen uns in 8 Tage, ich freue mich sehr darauf!

Bis bald,

Die Lara

P.S. Furðusjónin: Sokkabuxur frá DDR. Þær eru kannski ekki furðusjón en Christel á eitt ónotað par, hún sýndi okkur þær í gær og sagði að þær hefðu kostað 14 mörk. Ansi dýrar ef miðað er við að hún þénaði etwa 500 mörk á mánuði. Jájá svona var DDR víst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Lára það er gaman að fylgjast með þér og gott hvað allt er að gera sig.Ég les líka að þig hlakkar til að koma heim en það er nú annað með hana Tinnu hún er sko ekki alveg tilbúin að kima heim og fara að vinna

Birna mamma Tinnu (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 11:28

2 identicon

Sko systir góð, ég verð ekki lengi að berja íslenskuna inn í hausinn á þér aftur (án þess þó að slá þýskuna í burtu) á Íslandi tölum við íslensku! Og hana nú (sagði hænan)!

Elín (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 17:14

3 identicon

Enn og aftur.. þessi kona sem þú býrð hjá.. þetta er nú meiri veislan! En þetta Klöse hljómar nú bara mjög svipað og spænsk tortilla..:/ Úfff bara 8 dagar hjá þér sjiiiitt þetta er að verða búið OMG:´( En get ekki beðið eftir að hitta þig þegar við verðum báðar á litla klakanum:)

Tinna (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 17:35

4 identicon

Sæl Lára

Gaman að lesa um ævintýrin í Berlin. Við hlökkum til að fá þig heim en ég skil nú alveg að það gæti verið gaman að vera lengur, þú ferð bara aftur síðar.

Það er mikið að snúast í gamla bænum Gulli. Dísa og Heiðrún eru í heimsókn og Heiðrún vill helst bara vera í fjárhúsunum hjá lömbunum .

Bestu kveðjur

Ólafía amma 

Ólafia (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 16:56

5 identicon

ég bara verð að segja þér - það var bókunarbeiðni fyrir konu (er þetta ekki annars kvenmannsnafnið?) sem heitir :

TAVERNIER / Francoise

Hringir nafnið einhverjum bjöllum???? (þá reyndar karlmannsnafni Francois (er það ekki annars svona?)

Persóna í "uppáhalds" bókinni þinni!!!

Elín (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 17:16

6 identicon

hæ Lári ;)
Nú er spurning um að sletta alminnilega úr klaufunum!!! nee ég segi svona. Ég vona að þú njótir síðustu dagana mjög vel og komist hjá því að lita á þér hárið rauð-appelsínugult! Mér finnst það minna mig svooooo á þjóðverja að ég bara veit ekki hvað. Sammála?? (t.d í Lola rennt ofl..fólk úti á götum bara)Já sumarið er loksins að láta sjá sig og litlir grænir blettir farnir að poppa upp hér og þar! =D 8) gaman að því..jæj'esskan ég ætla að heilsa upp á Tinnu núna. Heyri í þér  ;)

Inga (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband