Færsluflokkur: Bloggar
8.5.2008 | 17:39
Berlin, du bist mir ans Herz gewachsen :'(
Guten Abend,
Ich bin so traurig. Ich bin den Tränen nahe. Morgen verlasse ich meine liebe Berlin und zurückkehre nach Island. Ich verlasse meine Freunde und mein wunderbares Leben in Deutschland. Mir ist das Herz schwer :'( Es ist echt schwierig sich von Berlin zu verabschieden.
Sjáumst á morgun/laugardaginn. Ég kveð að sinni frá Berlín. Vielen Dank fyrir að fylgjast svona vel með mér.
Bis morgen,
Tschü, tschü
Lara, die möchte gern ewig ein Berliner sein.
P.S. Rétt í þessu kom "amma" og gaf mér fullt af kortum sem hún föndrar sjálf. "Nimm doch mit für die Mama." sagði hún. Ég fékk tár í augun því ég á eftir að sakna hennar svo mikið :'(
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2008 | 18:16
Überraschung! Heute essen wir Spreewaldgurken :)
Guten Abend!
Jahérna, nur 2 dagar eftir í hinni fögru Berlín. Þá tekur við kuldi, vinna og vorgleði. Gaman að því að upplifa tvö vor þetta árið. Ég er búin að sjá trén laufgast í Deutschland og geri slíkt hið sama heima á Fróni. Annars er ég ekki sérlega ánægð með veðurspána fyrir komandi helgi. Rigning og rok. Uss, manni er aldeilis boðið upp á blíðu við heimkomuna. En prima veður fyrir ferðasögu yfir kaffibolla :)
Ég hef tekið því nokkuð rólega þessa vikuna, finnst einhvern veginn eins og ég eigi að vera á hlaupum um Berlín að gera allt sem ég hef ekki gert. En satt best að segja er ég komin með nóg. Ég er búin að klára túristakvótann fyrir Berlín (í bili, þangað til næst). Ég er tilbúin að fara heim. Búin að sjá það sem var á mínum "to do" lista, þó hér sé reyndar endalaust hægt að bæta við hann.
Alveg komin með upp í kok á skólanum. Mæti samt samviskusamlega fyrir utan að ég skrópaði eftir hádegi í gær til að pína VISA-kortið mitt aðeins. Það tókst með eindæmum vel. Tölti út úr Alexu kát í bragði hlaðin innkaupapokum. Eftir innkaupin mín fórum við Manon í Tiergarten til að sleikja sólina aðeins. Fundum okkur indælan stað við árbakkann og lágum þar í makindum fram að kvöldmat. Þá tók átið við. Vá, hvað ég er fegin að vera að losna undan þessari kvöð að þurfa alltaf að éta á mig gat af kurteisi. Nú (eftir tæpar 6 vikur af ofáti) er það reyndar orðið svo að auðveldara er að éta þessi ósköp svo ég verð sennilega alltaf svöng þegar ég sný aftur í eðlilega matarskammta. En mikið hlakka ég til að finna hungurtilfinninguna á ný.
Í dag gerðist harla fátt. Skóladagurinn var ekkert sérlega skemmtilegur. Þurftum að semja ræðu sem við eigum að flytja á morgun. Mitt verkefni var að skrifa stúdentaræðu, held mér hafi tekist ágætlega upp en það kemur í ljós á morgun. Eftir skóla og hádegismat héldum við Manon og Camille á okkar ástkæra "strandbar" og sátum þar með svaladrykk í hönd fram að kvöldmat. Sólin var ansi sterk svo ætli ég hafi ekki sólbrunnið pínupons. Allt í lagi með það, bruni verður brúnka. "Amma" tók það sérstaklega fram að hún hefði skammtað okkur lítið í dag af því það er svo heitt. Jájá fengum bara RISAstykki af omelettu og "delikatessen Gurken aus dem Spreewald" dazu (með). Þegar hún sagði að þessar hræðilega útlítandi gúrkur væru aus dem Spreewald átti ég bágt með mig...Tinni fattar af hverju ;) Horfið á myndina "Goodbye Lenin" og þá skiljiði hvers vegna.
Framundan er meiri sólarsleiking, síðustu skóladagarnir og að pakka niður. Það verður nú meiri hausverkurinn, úff. Þeir sem þekkja mig vita að mér fylgir mikið drasl, kann ekki að "travel light". Hugsaði m.a.s. í S-Bahninu áðan þegar ég sá tvo bakpokaferðalanga: "Mensch, þetta gæti ég aldrei. Hvernig í ósköpunum koma þau ÖLLU dótinu sínu í einn bakpoka?" Ég þyrfti sennilega þrjá.
Ég er næstum farin að titra af eftirvæntingu, svo mikið hlakka ég til að koma heim. Veit ég ætti sennilega að njóta síðustu daganna betur en eins og ég segi þá er ég komin með nóg. Ég fæ alltaf leið á öllu eftir ákveðinn tíma, sama hvað það er. Þegar nýjabrumið er farið er leiðinn fljótur að taka við. Jájá sumir eru gallaðaðri en aðrir, svoleiðis er lífið bara. Mikið hlakka ég til að stíga fæti á íslenska grundu, sjá kunnugleg andlit og knúsa alla svo fast að þeir eiga erfitt með að draga andann. Engar áhyggjur, ég sleppi áður en þið verðið blá (hoho þessi sorahúmor, kannski ekki skrítið að enginn skilji þessa kaldhæðni). Talandi um íslenska kaldhæðni. Um daginn var ég enn og aftur með landkynningu og talið barst að Laxness. Kennarinn minn sagðist eitt sinn hafa ætlað að lesa bók eftir hann en hætt eftir fyrstu línu sem hljóðaði víst svo: "Það besta sem kemur fyrir í lífi barns er að móðir þess deyr." Veit ekki hvaða bók þetta var eða hvort hún er að rugla, ekki mikill Laxness sérfræðingur. Ég reyndi allavega að útskýra fyrir konugreyinu að þarna væri líkalega hin íslenska kaldhæðni á ferð. Hún náði þessu engan veginn.
Jæja, nú fer að líða að því að ég geti sagt ykkur sögur augliti til auglitis. Veit ekki hvort annað blogg mun líta dagsins ljós enda stutt eftir. Brátt fer tölvan ofan í tösku. Fyrir þá sem eru ekki vissir þá kem ég heim seint á föstudagskvöldið. Hlakka til að sjá ykkur!
Bis bald,
Die Lara (sem brátt verður Lára aftur)
P.S. Furðusjónin: Talandi páfagaukur sem heitir Louis og segir HOLA! Þegar við sátum á "strandbarnum" kom allt í einu fólk með stóran hvítan páfagauk í farteskinu, hann vakti mikla lukku meðal annarra gesta. Gaman að þessu kvikindi. Ein þjónustustúlkan var þó ekki sammála. Hún var skíthrædd..hnjehnje!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2008 | 19:45
Manchmal wird man ein bisschen verwirrt
Tag!
Þá er síðasta vikan byrjuð. Trúi ekki að ég sé að fara heim. Hvernig er eiginlega hægt að snúa aftur? Er líf eftir Berlín? :'(
Skóladagurinn var ágætur og auðveldur. Ég lærði ný skemmtileg orð á borð við: "Streichholzschachtel" (eldspýtnapakki). Ansi flókið orð og kennarinn lét okkur því öll reyna að segja það. Haha hinir reyndu, ég gat og var sú eina sem fékk hrós fyrir framburð minn (ég alltaf hógværðin uppmáluð). Í seinni kennslustundinni ræddum við um uppfinningar 20. aldarinnar og í því samhengi barst pillan til tals (auf deutsch: Anti-Baby-Pille, ekkert verið að fegra þetta neitt). Hahaha einkahúmor minn kemur sjálfri mér oftar en ekki í einen kleinen bobba. Einhverjir þarna úti fatta þetta grín (þeir sem hafa fengið að heyra skemmtilegu vinnusögurnar mínar frá Café Paris) og geta því ímyndað sér viðbrögð mín þegar ég heyrði þetta orð á ný. Lára litla átti bágt með að halda aftur af hlátrinum :) Að sjálfsögðu sá enginn annar neitt fyndið við þetta svo ég fékk að njóta mín sem manneskjan með furðuhúmorinn. Ahh gaman að því.
Veðrið er með besta móti þessa dagana, sólin skín dag eftir dag og gleður okkur hér í Berlín eftir ansi napran apríl. Gærdagurinn var snilld. Byrjaði kannski ekkert sérlega vel, ég pirripú og langaði helst að öskra á hana Manon mína þar sem við stóðum í Potsdam og veltum fyrir okkur hvernig heimurinn sneri eiginlega. Já, við drifum okkur nefnilega til Potsdam í gær (bær/borg í ca. klst. fjarlægð með S-Bahn frá Berlín). En sólin skein í heiði og þegar við vorum búnar að átta okkur á tilverunni og komnar í Park Sanssouci var ekki hægt annað en að gleðjast yfir lífinu. Um þennan undursamlega stað á jarðkringlunni get ég ekki annað sagt en: "Mensch, ist es wahnsinnig schön, oder?!" Á þessu landsvæði sem kallast Park Sanssouci er fjöldinn allur af höllum. Við röltum um garðinn á milli hallanna, nutum blíðunnar og bulluðum heil ósköp. Villtumst smá en fundum Schloss Sanssouci að lokum. Ef þið minnist þess sem ég sagði um Schloss Charlottenburg, gleymið því! Ég ætla miklu frekar að búa í Schloss Sanssouci! Þarna er svo fallegt að mér er orða vant til að lýsa því. Echt wunderschön! Ég og Manon ákváðum að þarna yrðu framtíðarheimili okkar; hún í Neues Palais og ég í Schloss Sanssouci. Það síðasta sem við gerðum var að fara í túristabúðina og kaupa póstkort með verðandi heimilum okkar. Aldeilis skemmtilegur dagur.
Í dag hófst síðan verslunarmaraþonið sem mun standa yfir þessa vikuna. Schade að eyða fallegum degi inni í Alexa Kaufhof en svona er þetta bara. Uss og krónukvikindið! Í gær var evran 115 kr en í dag skyndilega 118 kr.! Er þetta pirrandi eða hvað? Skórnir sem ég keypti í dag hefðu verið 120 kr ódýrari í gær! Nah ja, læt þetta nú ekki stoppa mig.
Bis später..fer nú að verða hálftilgangslaust að blogga, en jæja, held ótrauð áfram allt til endalokanna.
Tschüssi :*
Lara
Bloggar | Breytt 6.5.2008 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.5.2008 | 19:12
Kinder und Betrunkene sagen die Wahrheit
Hallo!
Jæja, best að standa sig í blogginu þessa síðustu daga. Eftir viku mun ég ekki lengur hripa niður skemmtisögur frá Deutschland, af þeirri einföldu ástæðu að ég verð ekki lengur í Deutschland :( Ævintýrið verður búið og við tekur grámyglan. Noh ég er bara orðin jafn svartsýn og echt Deutsche. Nei, segi svona...við tekur gleðin í vorsólinni á Fróni.
Síðustu dagar hafa verið hinir rólegustu. 1. maí var mehr oder weniger (meira eða minna) laus við óeirðir, allir vandræðagemlingarnir héldu til Hamborgar þetta árið. Gerðist svo sem ekki mikið hjá mér heldur þann daginn, kíkti á Bode Museum. Mæli ekki með því nema fólk hafi sérstakan áhuga á trúarlegri list. Allavega var ég fegin að hafa farið þarna á fimmtudagskvöldi (frítt inn). Síðan fórum við Manon að sjálfsögðu út að hlaupa, ótrúlega duglegar. Bara búnar að skrópa einu sinni (í gær) vegna heiftarlegra harðsperra. En "amma" er allavega búin að ná der Hinweis (vísbendingunni) og tekur örlítið meira tillit til áhyggja okkar af línunum. Í gær gerðist ekkert...í dag fór ég á Deutsches historisches Museum. Það var ansi áhugavert, fullt af hlutum frá upphafi þess sem kalla má Þýskaland og að falli múrsins. Gaman, gaman. Sólin skein í heiði svo ég flatmagaði aðeins í Lustgarten áður en við tókum brjálaðan skokkarahálftíma. Hmhm, næstu daga mun ég sennilega ekki gera neitt nema versla. Fékk þvílíkan svip frá Manon þegar ég sagði henni að hugsanlega myndi ég skrópa e-ð í skólanum til að versla. Hún trúði varla að ég ætlaði að vera svona ósamviskusöm..hún hélt að ég ætti þetta ekki til. Get nú sagt ykkur að ef ég er með prik í rassinum þá eru sumar þessar Svissaragellur sem ég hef kynnst með staur. Útskýrist seinna augliti til auglitis.
Já, verð nú að segja að þegar svona stutt er eftir er ég komin með smá tilhlökkunarfiðring í mallakút. Hlakka til að koma heim og anda að mér fersku íslensku lofti. Á samt eftir að sakna Berlínar sárt. Vildi að ég gæti pakkað henni niður og skellt henni upp eins og tjaldi þegar "Fernweh" (útþrá) grípur mig. Stundum grípur mig undarleg tilfinning þegar ég rölti um göturnar, mig langar einhvern veginn að faðma Berlín að mér af eintómri væntumþykju til borgarinnar. Veit að þegar ég horfi yfir Berlín úr flugvélinni wird mir das Herz schwer (verður mér þungt um hjarta...segir maður þetta svona á íslensku?).
Aha á meðan ég man. Ef einhver á lausa stund á milli 22 og miðnættis þann 9. maí næstkomandi, hefur aðgang að bíl, er staddur á höfuðborgarsvæðinu og hefur óútskýranlega þörf til að rúnta út á flugvöll einmitt á fyrrnefndum tíma þá má hinn sami endilega kippa mér með í leiðinni. Hafið í huga að þessi aðili verður sá fyrsti sem ég hitti og mun því fá risaknús og upplifa eins og eitt gleðitár og fyrstu tilraunir mínar til að tala íslensku á ný. Gæti orðið svolítið fyndið.
Jæja, bis später!
Die Lara
P.S. Furðusjónin: "Amma" að reyna að koma DVD-spilaranum sínum í gang. Hún var einhvern veginn búin að rugla öllu, hvorki Manon né ég gátum hjálpað (enda ég með eindæmum tæknifötluð). Endaði með því að hún hringdi í ihr Enkel (barnabarn), gargaði aðeins á hann í símann áður en hann kom og reddaði þessu fyrir gömlu konuna. Já, það er ávallt stuð á heimilinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.5.2008 | 10:30
Ein Hund ist nicht lang an eine Bratwurst gebunden.
Guten Morgen,
Mikið er gaman að fá frídag svona rétt í lok vikunnar, geta sofið út og þurfa ekki að fara í skólann. Verst er þó að sólin hefur líka tekið sér frí og sent rigninguna til afleysinga. Kannski er það af hinu góða ef tekið er tillit til þess hvaða dagur er í dag. Eru ekki alltaf minni læti og óeirðir í rigningu? 1. maí er víst ekki óhætt að fara til Kreuzberg (hverfi þar sem margir innflytjendur búa) né Prenzlauer Berg vegna óeirða. Algjört bann er við því að leggja bílum í Kreuzberg í dag og er víst skrítin sjón að sjá hverfið algjörlega bílasnautt. Ég held ég hætti mér nú ekki þangað til að sjá þá furðusjón. Annars eru Berlínarbúar ansi duglegir við mótmæli og verkföll. T.d. var strætó í verkfalli í gær og í fyrradag fór heldur enginn strætó því verkstæðin (hjá strætó) voru í verkfalli og allir bílarnir bilaðir...pósturinn leggur líka alltaf af og til niður vinnu. Þetta er sko stuð.
Annars hafa síðustu daga verið rólegir. Ég hef mætt í skólann þrátt fyrir allt en eiginlega bara vegna þess að ég nenni ekki að hanga ein á meðan allir hinir mæta samviskusamlega í tíma. Skóladagurinn er svo sem ekki langur svo það er nægur tími til að leika eftir hann. Á þriðjudaginn gerði ég ekki mikið. Við Manon uppgötvuðum aðra risaverslunarmiðstöð á Potsdamer Platz (sko alltaf eitthvað nýtt að sjá í Berlín) og héldum í smá skönnunarleiðangur. Í gær fór ég svo með Manon og Émilie í Reichstag (þinghúsið). Yfirleitt er alltaf fáránlega löng röð til að komast inn og oft klukkutíma bið ef ekki meira. En við vorum heppnar og þurftum bara að bíða í tæpan hálftíma. Útsýni af þakinu og "der Kupel" (glerhvolfþakið) er ansi gott en skyggnið var reyndar ekki það besta í gær, gerði svo sem ekki mikið til, það var gaman að þessu engu að síður.
Eftir þetta skunduðum við heim staðráðnar í að sporna gegn matarskömmtum "ömmu" með smá skokki um hverfið. Jájá hlupum þarna um eins og bjánar í hálftíma, nokkuð ánægðar með okkur og ákváðum að gera þetta á hverjum degi hér eftir. Síðan var kvöldmatur, Schweinebraten með Sauerkraut og Klöse. Klöse er ansi sérstakt, það er einhvers konar kartöflukökur, búnar til úr soðnum kartöflum, hráum kartöflum, eggi og hveiti. Smakkast ekkert sérstaklega vel.. Allavega svo var ávaxtasalat í eftirmat og kemur "amma" ekki með þeyttan rjóma handa okkur á salatið (aldrei gerst áður). Við fórum að hlæja og Manon náði að stama út úr sér: "En við verðum bara feitar af þessu". Amma svaraði þessu með: "Hvaða vitleysa, þetta er bara léttrjómi". 15 mínútum eftir matinn kallaði hún á okkur og við þutum fram í eldhús. Stendur Frauchen þá ekki þar með ís handa okkur. Jahérna ef konan er ekki staðráðin í að fita mann þá veit ég ekki hvað. Um kvöldið fórum við svo í bíó með Camille á mynd sem heitir "Ein Schatz zum Verlieben", veit ekki hvað hún heitir á ensku. Gaman að geta farið í bíó og skilið myndina, við gátum m.a.s. hlegið að bröndurunum og að mínu mati er maður virkilega farinn að skilja þegar maður skilur brandarana.
Jæja, 8 dagar í heimkomu. Ég er svo einstaklega heppin með heimfarardag eða þannig. Einmitt sama dag og ég fer byrjar nefnilega "Karneval der Kulturen", svaka húllumhæ og hátíð sem stendur yfir alla hvítasunnuhelgina. Frábært að missa af því :( En á móti kemur að ég get skemmt mér í félagsskap góðra vina og talað íslensku allan daginn :) Eflaust verður það ansi þýskuskotin íslenska fyrstu dagana..þið munuð án efa heyra orð á borð við: echt, wirklich, Mensch og Schade oftar en ykkur langar til :)
Jæja, ágætt í dag. Verið nú dugleg að kommenta á lokasprettinum ;) Til allra þeirra sem eru í prófalestri og prófum: Gangi ykkur súpervel, sendi ykkur góða strauma frá Berlín! Wir sehen uns in 8 Tage, ich freue mich sehr darauf!
Bis bald,
Die Lara
P.S. Furðusjónin: Sokkabuxur frá DDR. Þær eru kannski ekki furðusjón en Christel á eitt ónotað par, hún sýndi okkur þær í gær og sagði að þær hefðu kostað 14 mörk. Ansi dýrar ef miðað er við að hún þénaði etwa 500 mörk á mánuði. Jájá svona var DDR víst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2008 | 19:02
Leb, als wollst du täglich sterben, schaff, als wollst du ewig leben.
Hallo meine liebe Freunde in Island!
"Skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til?" Svo söng Nýdönsk hér um árið. Ég held að svarið við þessari spurningu sé einfaldlega: Nei. Auf jedenfalls ekki í Berlín þessa dagana. Í þessu veðri er ekki hægt annað en að gleðjast yfir dásemd lífsins og liggja í sólinni allan daginn. Ég er yfirmáta hamingjusöm hérna og finnst afskaplega sárt að ég skuli bara eiga 11 daga eftir. Ég þarf að fara að skipuleggja síðustu daga mína svo tíminn fari ekki til spillis og ég nái að gera allt sem mig langar að gera. En annars er ágætt að njóta sólarinnar einhvers staðar á grænum bletti og gleyma öllum vandamálum heimsins, njóta bara lífsins.
Skólinn...úff ég er komin með upp í kok á honum. Þetta er svo langweilig að ég hef enga lyst lengur á að fara í skólann. Eins og ég segi langar mig bara að leika næstu 11 daga. Á eflaust eftir að "gera smá blátt" (blaumachen = skrópa) áður en yfir lýkur. Annars fékk ég nýjan kennara í dag. Hún er faziniert af Íslandi síðan hún las bók eftir Arnald Indriðason og langar, nei ætlar sagði hún, að fara til Íslands einn góðan veðurdag. Já, segið svo að krimmasögur séu ekki góð landkynning. Veit ekki af hverju en allir eru svo ótrúlega heillaðir af íslenskum "Familienname" (eftirnafn). Þeim finnst það alveg einstaklega sérstakt að allir í fjölskyldunni hafi sitthvert eftirnafnið..en já litla Ísland er víst skrítið og skemmtilegt. Ég hef samt gaman að því að fræða hina fávitru og trúið mér, þau þurfa á fræðslu að halda. Allir halda að Ísland sé bara einangruð lítil skítaeyja úti í hafi og við vitum ekki neitt um neitt. Það er oft svolítið móðgandi þó það sé bara vegna fávisku þegar ég er spurð hvort hitt og þetta sé líka á Íslandi...mestmegnis hlutir sem mér finnst svo sjálfsagðir og venjulegir að ég hef ekki pælt í því hvort einhversstaðar sé þetta ekki hluti af hversdagslífinu. En svona er þetta bara, ég held bara áfram að vera dugleg við landkynninguna.
Eftir þennan furchtbar (hræðilega) skóladag fórum við Marie, Emilie og Camille að borða áður en ég og Marie skunduðum að Denkmal des Holocausts (minnismerki um Helförina). Við fórum síðan að Reichstag og lágum þar á grasblettinum í ansi langan tíma, nutum sólarinnar og spjölluðum um allt og ekkert. Þegar við fengum leið á aðgerðaleysinu fórum við til Prenzlauer Berg að skoða "secondhand" búðirnar sem eru þar í fjöldatali, röltum á Kastanienallee og þar í kring. Settumst síðan á kaffihús og brostum aðeins meira framan í sólina áður en haldið var heim á leið. Ansi notalegur dagur. Aldrei að vita nema við gerum e-ð í kvöld, kæró hennar Manon missti af fluginu sínu í dag svo hann hefur eitt óvænt aukakvöld í Berlín. Eins og "amma" spurði mig áðan: "Geht ihr dann ins Carambar heute?" Alveg síðan við fórum á Carambar eitt kvöldið (kaffihús/bar á Alex) hefur hún hlegið að þessu nafni..henni finnst þetta alveg ótrúlega fyndið. Já, hún "amma" er alveg stórkostleg. Hennar mun ég sakna, en helvítis hundurinn má..já best að segja ekki meira. Þið getið lokið þessari setningu sjálf. Óþolandi kvikindi!
Já, 11 dagar til stefnu. Ég er lúmskt farin að hlakka til að koma heim. Heim í vorið, heim í sveitina á uppáhaldsárstímanum mínum. Það er fátt jafn yndislegt og að liggja andvaka uppi í rúmi á bjartri íslenskri sumarnóttu og heyra ekkert nema einstaka jarm í lambi. Ahhh hlakka til að njóta íslensku sumarnæturinnar...þetta sumar verður prima :)
Nah ja, hafið það gott meine Lieblinge. Ich vermisse euch und kann kaum auf das warten, euch alle wiedersehen und umarmen!
Bis später,
Lara "mit dem schönen Familienname"
p.s. Furðusjónin: Auglýsing um lyf gegn harðlífi. Ég veit ekki hvað er málið með þetta! Af hverju eru þessi lyf auglýst svona mikið? Ætli Þjóðverjar þjáist almennt mikið af harðlífi? Sennilega ef tekið er tillit til matarins, Wurst, Brot und Bier eru nú ekki það besta fyrir meltinguna. En þessi auglýsing, mægður að spjalla um vandamál með hægðir, brosandi og dóttirin svo þakklát þegar móðirin kom hendi færandi með þetta lyf. Ja wohl, ich verstehe das nicht, aber die Deutsche sind ja manchmal ganz verrückt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.4.2008 | 19:24
Am Abend wird der Faule fleißig
Guten Abend,
Úff afsakið bloggleysið, ég hef verið einkar upptekin þessa helgina sem er bara af hinu góða. Veðrið hefur verið með besta móti og í dag fór hitinn m.a.s. í 20°, haha 2° heitara en í Barcelona ;) Þessi blíða gerir mann samt latan, við nennum ekkert að gera nema flatmaga einhvers staðar með svaladrykk við hönd. Slæmt því ég á enn eftir að heimsækja nokkur söfn og versla...en það gerir maður ekki í 20° hita. Já, alles ist immer noch toll (enn er allt frábært). Jæja, þá hefst frásögnin..vona að þið séuð með snarl með ykkur, þetta verður LANGT blogg :p
Föstudagur: Skóli til hádegis, ef ég man rétt var þetta langsam (leiðinlegur) dagur. Eftir leiðindin fórum við Manon og Marie að borða á krúttlegum veitingastað við Hackescher Markt. Alltaf jafn notalegt að sitja úti í góða veðrinu í Berlín, fæ ekki nóg af því. Danach ákvað ég að kíkja nú aðeins í Alexa Kaufhof og versla. Manon fór á meðan út á flugvöll að sækja kærastann sinn sem var að koma í heimsókn yfir helgina. Ahh VISA-kortið fékk að finna aðeins fyrir því þennan fallega föstudagseftirmiðdag. Það veldur samt vonbrigðum að föt og annað þvíumlíkt er hér alls ekki ódýrt, munar kannski 2000 kr. á verðinu hér og heima. En úrvalið er aftur á móti undursamlegt. Síðan tók við át (aka kvöldmatur) og meltitími áður en haldið var út á lífið. Planið var að hitta Svissaragengið kl. 22:30 á U-Bahn station í Prenzlauer Berg og fara þaðan ins Disco. Ég, Manon og Luïc vorum aðeins og sein en það kom ekki af sök því restin mætti ekki fyrr en kl. 1...uss frönskumælandi Svissarar eru nú meiri rugludallarnir. Allavega, ég var pínu pirripú því ég þurfti að vakna kl. hálf átta daginn eftir til að fara til Dresden svo ég var á báðum áttum hvort ég ætti að fara með ins Disco eða halda heim á leið. En partýdýrið vann að lokum, auk þess sem þetta var síðasta kvöld Nicolas, Samuels og Clémence í Berlín. Í tilefni af því dönsuðum við af okkur rassgatið til kl.5..ahh gaman gaman.
Laugardagur: Ég dröslaði mér á lappir, eldhress eftir 2 klst. svefn og hélt á Hauptbahnhof til að fara til Dresden með skólanum. Vorum 15 talsins og átti lestin okkar að halda af stað kl. 9:31. Hvað haldiði að hafi þá gerst? Við biðum í sakleysi okkar á brautarpallinum þegar tilkynnt var að lestin okkar yrði nokkrum mínútum of sein. Jæja, allt í lagi með það nema hvað að nokkrum mínútum seinna var tilkynnt að hún yrði hálftíma of sein vegna lögregluinngrips. Þá vorum við í vondum málum því til að komast til Dresden urðum við að skipta um lest á leiðinni og til þess höfðum við aðeins 15 mín. Hálftíma seinkun þýddi því að við myndum missa af hinni lestinni og líkur á því að við yrðum að hanga í klst. eða lengur í einhverju krummaskuði. En allt fór að vel að lokum, við gátum fundið aðra leið til að skipta og vorum bara klst seinna í Dresden en áætlað var. Veðrið var frábært, við röltum aðeins um miðbæinn og skoðuðum merka staði í borginni. Við höfðum bara 5 klst svo ekki var hægt að gera margt en við fórum upp í kirkjuturn (á Kreuzkirche minnir mig) og horfðum yfir borgina. Síðan var förinni heitið í Frauenkirche sem er það sem flestir koma til að sjá í Dresden, voða falleg. Eftir það fórum við að Der Zwinger sem er fáránlega flott höll sem inniheldur söfn. Þá var kl orðin tæplega fimm svo við fórum í Gemäldegalerie (málverkasafn í Der Zwinger, die alte Meister, endurreisnarlist) og tókum það á hlaupum. Schade að við þyrftum að flýta okkur svona mikið, en litli listanördinn var hamingjusamur þrátt fyrir það. Svo var lestin tekin heim á leið, 3 klst ferð á milli Berlínar og Dresden. Mér finnst Dresden gullfalleg borg en miðað við Berlín er hún pínu "sveitó", við tókum öll eftir því hvað væri rólegt þarna. Ég væri samt alveg til í að fara þarna aftur, þetta er stórmerkileg borg. Magnað hvað vel hefur tekist að endurreisa borgina eftir að hún var bókstaflega lögð í rúst í seinni heimsstyrjöldinni...þó byggingarnar séu í gömlum stíl þá sést að þær hafa ekki orðið fyrir veðrun síðustu 300 árin enda nýrri af nálinni en það. Ég var komin heim um ellefu leytið, algjörlega uppgefin. "Amma" fór strax í að finna til kvöldmatinn handa mér og Manon og Luïc borðuðu með mér eftirmat. Þau voru ákveðin í að kíkja út en voru síðan alveg jafn uppgefin og ég svo förinni var ekki heitið lengra en í bólið..eins og þau segja á frönsku: "Je vais faire do-do." Haha, ég sagði þeim að þetta hefði klárlega ekki sömu merkingu á íslenskunni fögru :p
Sunnudagur: Ég lufsaðist á fætur um 10 leytið, ansi lúin líkamlega en með sól í sinni eins og ávallt. Þar sem veðrið var prima var planið að fara eitthvert og flatmaga. Christel sagði okkur að kíkja í Botanischer Garten sem er víst undurfagur garður með alls konar plöntum. Síðan datt henni allt í einu í hug að Tierpark væri kannski skemmtilegri. Við hváðum, Tierpark? Was ist das? Þá sagði hún okkur að í A-Berlín væri dýragarður sem væri þrisvar sinnum stærri en Der Zoo en enginn vissi af af því hann er í A-Berlín. Uss, við höfðum aldrei heyrt um þetta svo við ákváðum að skella okkur í aðra dýragarðsferð. Ég getsko fullvissað ykkur um að Tierpark er miklu betri en Der Zoo! Miklu fleiri dýr og m.a.s að segja höll líka! Kannski ekki alveg jafn ferðamannavænn og hinn en ef áhugi er fyrir dýrum þá mæli ég hiklaust með Tierpark. Við eyddum 4 klst í að rölta þarna um og náðum ekki einu sinni að fara um allan garðinn..echt stór garður. Eftir alla þessa göngu ákváðum við að við yrðum að flatmaga aðeins. Hittum Marie "am Strand" (aka við árbakkann) á uppáhaldsstrandbarnum okkar og lágum þar í notalegheitum þangað til hungrið svarf að. Þá héldum við heim í átið, mmm fengum fisk! Mikið var ég hamingjusöm með það, bara búin að fá fisk einu sinni áður hérna. Annars verður án efa gott að leggja höfuðið á koddann í kvöld. Helgin búin að vera viðburðarrík og þar af leiðandi nokkuð lýjandi. En echt skemmtileg líka :) Ég er m.a.s. búin að taka smá lit (og ekki bara rauðan).
Nú eru 12 dagar til stefnu. Eins og staðan er núna langar mig virkilega ekki heim. Jújú, það verður gott að sofa í sínu rúmi, geta borðað e-ð annað en þýskan ömmumat, andað að sér hreinu lofti og drekka ískalt vatn. En það væri svo frábært ef ég gæti gert allt þetta í Berlín :/ Ég hlakka til að hitta vinina og fjölskylduna...en það verður líka traurig að yfirgefa vinina hér. Fattaði það bara á föstudaginn þegar hluti af Svissaragenginu hélt á heim á leið..það var ansi erfitt að kveðja þau þó ég hefði bara þekkt þau í nokkrar vikur. En svona er þetta. Ég ætla að njóta síðustu viknanna minna hér. Flatmaga í sólinni og njóta menningarinnar. Kíkja á söfn og versla. Svo kem ég heim í rólegheitin og fæ menningarsjokk.
Komið gott í bili. Risaknús og kossar til allra :*
Lára
P.S. Furðusjónin: Þegar við vorum á Gemäldegalerie var alveg að loka, til að gefa það til kynna rölti kona um safnið og sló í gong. Mér fannst þetta alveg snilld, væri til í að fá að gera þetta í minni vinnu. Aha svo sá ég líka ekta sveita-Þjóðverja í Dresden, með yfirvaraskegg sem sveigðist upp á endunum..mig langaði eiginlega að spyrja hann hvort hann ætti ekki örugglega Lederhosen. Þýskar matarvenjur: Aspas er ansi vinsæll hérna, var verið að selja hann frisch vom Spreewald þarna í Dresden. Ég var líka í bókabúð um daginn og sá að í deildinni með matreiðslubókum var ansi stórt safn af bókum um aspas. Jahá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2008 | 20:51
"Männer sind etwas sonderbar"
Hallo, hallo
Mikið er lífið yndislegt í veðurblíðunni. Hitinn í dag fór upp í 18°, ekki slæmt það..Barcelona hvað? ;) Fyndið hvað það er miklu auðveldara að fara á fætur á morgnanna þegar sólin býður manni góðan dag. Já, sumardagurinn fyrsti var ansi sumarlegur í Berlín. Ekki veit ég hvernig hann var á Fróni en mig grunar að himininn hafi grátið þennan dag eins og ávallt. Hí á ykkur :)
Ég var ansi müde (syfjuð) í skólanum í morgun eftir útstáelsi gærdagsins en maður er bara ungur einu sinni í Berlín. Svo er líka að fækka í "Svissaragenginu" eftir þessa viku og því um að gera að hafa síðustu dagana sem skemmtilegasta. Fyrstu tímar dagsins voru anstrengend (erfiðir) af einskærum leiðindum. Uss, málfræði getur verið svo furchtbar niðurdrepandi. Ein og hálf klst af æfingum þar sem á að mynda nafnorð úr sögn = hægur dauðdagi. Tala nú ekki um þegar sólin skín á fallegum sumardegi, þá er erfitt að halda einbeitingunni. Tíminn am Nachmittag (eftir hádegi) var hins vegar ganz lustig (frekar skemmtilegur). Í framhaldi af umræðu sem myndaðist í síðustu viku ákvað Verona (einn kennarinn okkar) að láta okkur hlusta á lagið "Männer" með söngvaranum Herbert Grünemeyer. Mæli með því að þið sláið þetta inn á YouTube og hlustið á lagið, þetta er þýsk 80's snilld! hnjehnje! Allavega, það fyndna var að enginn karlkyns nemandi mætti í tímann svo það mynduðust ansi áhugaverðar umræður tengdar þessu skemmtilega lagi. Þið skiljið af hverju ef þið sjáið textann, hann fjallar um karlmenn eins og titillinn gefur til kynna. Jæja, eftir það fórum við auf die Terrasse (veröndina, reykingasvæðið) í skólanum og nutum sólarinnar. Manon, Samuel og Vincent þurftu að fara í munnlegt próf svo ég, Nicolas og Marie héngum þar og biðum eftir þeim..förinni var heitið í leti við der Spree. Síðan fórum við á kaffihús við árbakkann og kældum okkur niður með ís...voða notalegt.
Eftir kvöldmat strunsaði ég í safnaleiðangur, Manon nennti ekki með. Ætlaði að fara á Bode Museum en neinei, þegar ég kom þangað varfleira fólki ekki hleypt inn - klukkan samt bara hálf átta! (opið til 22) Frekar pirruð fór ég yfir á Alte Nationalgalerie (þýsk 19. aldar málverk) og sá alls ekki eftir því. Ógrynni af wunderschöne málverkum sem "amatörar" eins og ég hafa aldrei heyrt af áður, enda þýskir listmálarar ekki sérlega þekktir. Svo eru þarna líka gamlir kunningjar af Le Musée d'Orsay...Monet, Manet, Renoir og Degas (Tinnsi, hringir bjöllum?) En ég var ánægð með þessa heimsókn þó ég hafi kannski strunsað óþarflega hratt í gegnum safnið, ein "dysjuð" (hehe - einkahúmor) eftir sólina. Því miður á ég bara tvo fimmtudaga eftir svo hugsanlega verð ég að punga út 5 evrum fyrir eitthvert safnanna sem ég á eftir að sjá :/ C'est toll...eins og sumir segja.
Já, annars er lífið bara gleði,gleði. Berlín skartar sínu fegursta þessa dagana og stemmningin er alveg frábær. Mér finnst algjör snilld að rölta um göturnar og sjá fólkið sitja í sólinni með kaldan bjór og njóta lífsins. Þetta er lífið! Verst að því lýkur eftir 2 vikur :( Í alvöru talað, ég ætla að koma hingað aftur fljótlega...Berlín er best :)
Gott í dag, hafði eiginlega ekkert merkilegt að segja..en sumir eru orðnir háðir daglegum færslum ;) Verið dugleg að kommenta elskurnar og deyjið ekki úr kulda þarna fyrir norðan ;) hnjehnje
Tschü, Tschü
Lara (ein bisschen sonnenverbrannt)
P.S. Furðusjónin: Tvær rottur hlaupandi yfir gangstéttina á Alex. Mensch, litlu brá nú alveg aðeins..ugh
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.4.2008 | 19:19
Alles hat ein Ende, nur die Wurst hat zwei
Guten Abend,
Ég þori ekki annað en að skella inn einum snöggum pistli þar sem fólkið virðist þyrsta í blogg. Greinilega bannað að taka sér frí einn og einn dag til að liggja í sólinni. Já, gott fólk þið lásuð rétt: sólinni. Hún hefur loksins ákveðið að staldra við hér í Berlín og gleðja okkur vesalingana. Eins gott því ég var við það að deyja úr kulda og ekki ein um það.
Allavega, í gær gerðist nú ekki mikið. Ég var lengi í skólanum og verð að segja að við eyddum nú mestum tímanum í að horfa löngunaraugum út um gluggann. Sumarið loksins komið og allir þrá að liggja úti í sólinni með tærnar upp í loft. Fékk samt nýjan kennara í gær sem þýddi smá tilbreytingu í skólanum. Ég reyni að vera dugleg að fylgjast með og læra en þar sem ég er bara að þessu til að leika mér sé ég enga ástæðu til að taka þetta alvarlega. Þarf ekki að taka neitt próf eða neitt. Mæti bara í skólann mér til gamans ;) Haha já það er lítill tungumálanörd í hjarta mínu sem verður að fá að njóta sín. Eftir skólann skellti ég mér út í blíðuna, Manon var föst í prófundirbúningi. Ég rölti að Lustgarten (grænn blettur á Museum Insel, við Der Dom og öll söfnin...unglaublich schön) og naut þess að liggja þar í sólinni og lesa umkringd fallegum byggingum (og ítölskum túristum). Síðan hélt ég nú bara heim á leið. Um kvöldið horfðum við á "Spartacus"..Christel á helling af alls konar myndum sem hún lánaði okkur, sem er ágætt til að æfa "Hörverständnis" (skilning á mæltu máli) rétt áður en maður skríður í bólið. Allavega, það er búið að taka þrjú kvöld að horfa á "Spartacus" og enn er hún ekki búin, hef aldrei séð hana áður svo ég veit ekki hvenær hún endar eiginlega...en eins og alltaf skondið að horfa á myndirnar "döbbaðar".
Sólin heiðraði okkar aftur með nærveru sinni í dag og vakti það eintóma kátínu. Eftir skóla fórum við Marie, Nicolas (bekkjarfélagar mínir) á veröndina í skólanum (reykingasvæðið) og sleiktum sólina á meðan við biðum eftir að Manon, Samuel og Vincent yrðu búin í prófinu mikilvæga. Planið var að fara á Kneipe og halda sólarsleikingunni áfram eitthvað fram eftir degi. Röltum að Hauptbahnhof og fórum þar á stað sem stendur við árbakkann, mjög notalegt. Í dag gerðist svo ekkert meira..við sátum þarna frá hálf þrjú til sjö með tærnar upp í loft. Hreint út sagt yndislegt. Þegar heim kom beið okkar Abendessen. Ég veit ekki hvort þið, lesendur góðir, hafið gert ykkur í hugarlund hversu mikið ég borða í kvöldmat jeden Tag (hvern dag). "Amma" skammtar svo mikið á diskana okkar að ef horft er til magns er jólamáltíð hvert einasta kvöld! Sem dæmi get ég nefnt kvöldmat dagsins í dag. Kjúklingur og franskar kartöflur. Á disknum mínum var hálfur kjúklingur og hrúga af frönskum kartöflum. Grænmeti (gúrkur o.s.frv.) til hliðar. Búðingur (í dós) í eftirmat. Hvernig á eðlileg manneskja að geta torgað þessu öllu? En fyrir kurteisissakir troðum við í okkur, annars heldur "amma" að þetta hafi ekki verið gott. Eiginlega er ekki hægt að kalla þetta máltíð, þetta er át. Í kvöld fékk búðingurinn að minnsta kosti að bíða betri tíma þar sem það er bara sérmagi fyrir ís, ekki búðing ;) Ég mun ekki hafa lyst á mat í heila viku þegar ég kem heim og sé safapressuna góðu í hyllingum.
Já, það styttist annars óðum í heimkomu. 16 dagar. Blendnar tilfinningar. Einerseits vil ég ekki yfirgefa Berlín og allt það undursamlega sem hún hefur upp á að bjóða, andererseits langar mig heim í rólegheitin og faðm vina og fjölskyldu. Það verður grátur af sorg og gleði. Ég mun fá menningarsjokk. Nah ja, noch zwei Wochen sem er um að gera að njóta til hins ýtrasta!
Segi þetta gott að sinni, við ætlum að drösla okkur aðeins út í kvöld = die Kleine wird wahrscheinlich ein bisschen müde morgens ;)
Bis später,
Lára með sól í sinni
P.S. Furðusjónin: Jæja, hér í Deutschland er svolítið sem nefnist "Alster". Það er drykkur; bjór blandaður með gosi...já nú hugsa sennilega margir: "oj barasta". En ótrúlegt en satt þá er þetta er ekkert svo slæmt, tilvalið á heitum sumardegi. Drykkjamenning Þjóðverja er sko stórskemmtileg og efni í heila bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.4.2008 | 17:24
Mit Sonne im Herz :)
Guten Tag,
Ég er svo echt dugleg að blogga að þið hafið eflaust ekki við að lesa en ég veit að þið takið öllu fagnandi sem truflar ykkur við vinnu eða lærdóm..svoleiðis er það bara. Svo ég held blogginu ótrauð áfram og segi ykkur skemmtisögur af sjálfri mér. Reyndar liðið langt síðan síðast svo þetta verður eflaust svolítið langt...
Laugardagskvöldið var nú ansi skrautlegt. Við Manon eyddum tveimur og hálfri klukkustund í U-Bahn og S-Bahn til að komast á rétta staðinn til að dansa af okkur rassinn. Fyrsta planið var að hitta svissneska vinkonu Manon á stað rétt hjá Potsdamer Platz svo við tókum U-Bahn þangað. Rötum ekki mikið í þessum hluta Berlínar svo Manon leist ekkert á að við værum tvær að rölta þarna í myrkrinu. Allt í lagi með það..ætla ekki að pína hana í kæruleysið svo U-Bahn var það aftur. Fórum alla leið á Alexanderplatz (sem er ganz weit = frekar langt) til að skipta yfir í aðra U-Bahn sem fer að stað sem Clémence ætlaði að vera á. Þegar þangað kom sáum við að þetta var einmitt sami staðurinn og okkur hafði verið neitað inngöngu síðustu helgi. Orðnar svolítið ärgerlich (pirraðar) fórum við aftur á Alex, tókum S-Bahn eitthvert til A-Berlínar til að finna enn einn staðinn. Það hafðist að lokum og við gátum stigið langþráð dansspor.
Sunnudagur: Endlich (loksins) var veðrið viðunandi svo ákveðið var að halda í dýragarðinn í góða veðrinu. Dýragarðurinn í Berlín er eflaust hvað þekktastur fyrir hann Knút litla, en tíminn líður og Knútur er ekkert lítill og sætur lengur. Ég veit ekki einu sinni hver hann var af þessum fjórum ísbjörnum sem lágu þarna í makindum. Horfði bara á þá alla og hugsaði: "Vei, Knútur!" Svona er maður klikkaður. Spurning hvort það ætti ekki að láta Knút ganga með nafnspjald eða mála á hann stóran, rauðan blett til að aðgreina hann frá hinum. Gaman að þessari dýragarðsferð, mæli alveg með því að skella sér þangað á góðviðrisdegi í Berlín. Annars gerðist nú ekki mikið meira þennan daginn enda sunnudagur og í mínum huga eru þeir ætlaðir til afslöppunar.
Í dag: Vúhú veðrið var æææðislegt! Vorið er loksins komið! Hí á ykkur heima, nú er miklu heitara hjá mér og engar bláar hendur sjáanlegar. Skóladagurinn var ágætur, ég er reyndar komin með smá leiða því kennslustundirnar eru frekar einhæfar. Skil núna hvers vegna fólk fer að skrópa eftir margra mánaða veru...ekki að ég ætli mér að byrja á því þó áhuginn á þýskunáminu sé ekki jafn brennandi og í fyrstu. Eftir skóla skundaði ég af stað, Manon varð eftir í skólanum til að læra. Ég nýtti mér góða veðrið og fór að Siegesäule en þar er hægt að fara upp á topp og horfa yfir Berlín. Ansi margar tröppur en það stoppaði strunsarann ekki (þó ég væri búin að labba alla leið frá skólanum...rúma 2 km). Tók síðan strætó til baka..þurfti að bíða lengi eftir honum því strætó hér er alveg jafn áreiðanlegur og í Rvk...sem sagt, kemur eiginlega bara þegar honum hentar. Fékk síðan Schweinebraten í kvöldmat..mmm, það er gutes Essen...og Kartoffelsuppe líka. Jájá, þó mér finnist Wurst viðbjóður er ekki þar með sagt að allur hefðbundinn þýskur matur sé vondur.
Ég man ekki neitt þessa dagana svo það er eflaust margt sem ég hef ætlað að skrifa hér en er búin að gleyma. Berlín er samt alltaf jafn frábær og í veðurblíðunni sér maður hvað þetta er gullfalleg borg. Þrátt fyrir allar risablokkirnar, byggingarframkvæmdirnar, skítugar götur og betlandi dópista...hér er frábært að vera! Ég er ekki bara með Sonne im Herz, ég er með Berlin im Herz. Mun sakna hennar übermikið þó ég sé líka farin að hlakka til heimkomunnar sem styttist óðum í :)
Gott í dag, ég er müde (þreytt) eftir alla gönguna í góða veðrinu sem á víst að vera svipað næstu daga.
Góðar stundir,
Lára
P.S. Furðusjón dagsins: Uuu ég sé alltaf fullt af skemmtilegum hlutum og hugsa með mér: "Þetta er efni í furðusjón dagsins!" En ég er haldin ótímabærum elliglöpum svo ég gleymi því jafnóðum...ætla því að minnast á Trabi-Safari..það er nefnilega ótrúlega fyndið að sjá lest af Traböntum "þjóta" framhjá manni, þeir eru nú frekar sjaldséðir hér. Þetta er túristadæmi, hægt að fara í 90 mín. bíltúr um borgina í Trabant. Ansi sniðugt. Hey já..sá líka flóðhest borða í dýragarðinum. Það var merkileg sjón.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)