Færsluflokkur: Bloggar
19.4.2008 | 17:07
Mensch, hör mit dieser Nörglerei auf!
Hallo!
Das Leben ist toll, ja? Að minnsta kosti þegar veðrið er að skána og sólin lætur sjá sig í eins og einn klukkutíma :/ Þó hér í Berlín sé skítakuldi (haha, í dag var 1° heitara en í Rvk..loksins!) er vorið samt komið, blóm og tré farin að blómstra...það eina sem vantar er vorveðrið. En eins og heimamenn segja: "April, der weiss nicht was er will." (Apríl sem veit ekki hvað hann vill), veðrið er nefnilega svolítið íslenskt í þessum mánuði. Heilsa mín er orðin öllu skárri, þökk sé undratei sem "amma" lumaði á í pokahorninu. E-ð sérstakt "Erkältungstee" (kvefte) að hennar sögn.
Á fimmtudagskvöldið drusluðumst við Manon á Pergamonmuseum, hálfveikar en ákveðnar í að láta það ekki á okkur fá. Á Pergamon má finna ýmislegt frá Forn-Grikkjum og Rómverjum ásamt íslamskri list. Sem betur fer vorum við mættar snemma því um leið og kl. verður sex flykkist fólk að safninu, þá er frír aðgangur. Enn og aftur gladdist litli listasögunördinn, þetta safn erhreint út sagt æðislegt. Mæli eindregið með því fyrir þá sem ætla sér að heimsækja Berlín. Eftir það höfðum við ekki orku í frekari safnaskoðun enda Pergamon ansi stór biti svo förinni var haldið heim til kveftedrykkju.
Í gær, föstudag, var líðanin skárri svo ég hélt í skólann enda ekki þekkt fyrir die Schule zu schwänzen (skrópa). Verkefni dagsins var heldur ekki krefjandi, við horfðum á "Das Experiment" (þýsk mynd frá 2001) og ræddum aðeins um hana. Kátar í bragði yfir Feierabend (lok vinnudags) héldum við Manon til Prenzlauer Berg, staðráðnar í að finna þar veitingastað sem Samuel hafði sagt að við yrðum að prófa. Ja, wohl við strunsuðum þarna um og fundum loks grískan veitingastað sem Samuel hafði einmitt mælt með. Hehe við vorum aldeilis ánægðar með þessa máltíð. Þjónninn færði okkur grískan "snafs" í fordrykk, maturinn var einkar gómsætur og við ákváðum að fagna föstudeginum og fá okkur vín með. Þegar við svo fórum að borga, bauð þjónninn okkur "snafs" af einhverju öðru grísku sulli. Við litum bara á hvor aðra og sögðum: "Ja, warum nicht." Endaði svo á því að við stauluðumst út af staðnum, ein bisschen betrunken. Athugið að klukkan var þrjú um daginn. Þegar við komum heim og sögðum "ömmu" frá þessari einkar ánægjulegu máltíð hló hún bara að ástandi okkar og sagði: "Ihr geht dann heute nicht mehr raus?" (Þið farið þá ekki meira út í dag?) Og það gerðum við heldur ekki. Vorum alveg á því að fara ins Disco (út að dansa) en um kvöldið var hressleikinn ekki meiri en svo að við ákváðum að fresta því til betri tíma. Enda er alveg nóg að verða fullur einu sinni á dag ;)
Í dag hef ég verið nokkuð róleg en þó búin að fara út og strunsa nokkra kílómetra í kuldanum. Manon er að deyja úr stressi fyrir prófið sitt í næstu viku og gerir því fátt annað en læra. Skil hana svo sem alveg, ég væri svona líka ef ég væri í þessu af einhverri alvöru :/ Ég tók því bara strunsið ein. Fór á Hamburger Bahnhof sem er safn með nútímalist. Já, af hverju ekki að skoða það líka fyrst maður er hérna á annað borð...m.a. verk eftir Andy Warhol, Roy Liechtenstein og eitt eftir Picasso. Sum verkanna voru mjög flott en annað...úff ég skildi ekki neitt. Stóð þarna íhugul á svip og starði en í hausnum á mér var eitt stórt spurningamerki. T.d. var þarna sýning á ljósmyndum eftir e-n sem ég man ekki hvað heitir. Eitt verkið var þrjár myndir saman: á einni var flísalagt eldhúsgólf, á annarri var maður að æla (myndin tekin á því augnabliki sem ælan stóð í fossi út úr honum) og á þeirri þriðju var ælupollur á flísalögðu eldhúsgólfinu. Flott? Not. En þetta var áhugavert og væri eflaust áhugaverðara ef maður hefði virkilega brennandi áhuga á nútímalist. Síðan rölti ég nú bara um, kíkti í búðir og á flóamarkaðinn Am Kupfergraben (markaður sem er alltaf um helgar við árbakkann). Spurning hvað verður með kvöldið, aldrei að vita nema ég nái að plata hana vinkonu í kæruleysið. Annars verð ég að viðurkenna að ég sakna þess sárlega að lyfta mér upp í góðra vina hópi: Tala stanslaust (á íslensku), hlæja að öllu og engu (geri það svo sem hér líka), detta svo niður eins og einn stiga til að kóróna kvöldið (ekki það að það gerist alltaf) og vilja deyja daginn eftir. Gleðin mun sko verða við völd þegar ég sný aftur á Frónið :)
Mér finnst tíminn líða svo stórkostlega hratt. Ég vil ekki að ævintýrið endi. Ég hlakkaði til þess í sex mánuði að fara til Berlínar og bráðum er þetta búið. Hvað svo? Til hvers á ég að hlakka? Ja wohl, næstu heimsóknar minnar til Berlínar :) Þá tek ég einhvern með..hvern langar?
Nah gut, læt þessu lokið að sinni. Haldið áfram að fylgjast með og skrifa margar athugasemdir, þá verður litla glöð í hjartanu.
Eure,
Lára
p.s. Furðusjónin: Þýskir fótboltaáhangendur. Í dag var úrslitaleikur í bikarkeppninni eða e-ju og Berlín full af snarklikkuðum Borussia Dortmund og Bayern München stuðningsmönnum. Þeir syngja, drekka bjór og "grölen" sem þýðir að tala hátt og öskra undir áhrifum áfengis. Gaman að þessu. Fyrirsögninni er beint til sjálfrar mín: "Hættu þessu nöldri manneskja." semsagt, hætta að nöldra yfir veðrinu...;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2008 | 14:00
Kopf hoch, du wirst es schaffen :)
Guten Tag,
Jæja, hef ekkert bloggað lengi og ástæðan er einfaldlega sú að ekkert merkilegt hefur gerst. Veðrið hefur verið ömurlegt alla þessa viku svo spazieren gehen um Berlín er út úr myndinni, í dag er m.a.s. kaldara heldur en í Reykjavík (5° hér en 10° í Rvk.!). Gaman, gaman!
Kuldinn hefur alls kostar ekki gert mér gott þar sem ég er barasta orðin veik, takk fyrir pent :( Ekkert rosalega gaman að vera veikur í Berlín :( Er samt búin að mæta í skólann síðustu daga en spurning um að taka því rólega núna...e-ð sem mig langar ekki að gera þegar svo stutt er eftir af dvölinni. Heimþráin hefur svo sem gert vart við sig síðustu daga en held það sé bara vegna þess að ég er veik...þá langar mann alltaf heim til mömmu. Get meira að segja sagt núna: Heim í hlýjuna! Ætla samt ekki að taka því rólega í kvöld þar sem er fimmtudagskvöld = safnakvöld. Ég á svo fáa fimmtudaga eftir að ég má ekki við því að missa úr ;)
Í gær fór ég reyndar í KDW (Kaufhaus des Westens - Verslunarmiðstöð Vestursins). Það er "huges", á 7 hæðum og aldeilis óendanlegur fjöldi af vörum...ég var alveg að missa mig þarna..en var bara í rannsóknarleiðangri svo VISA-kortið fékk frið þennan daginn. Það fer samt alveg að líða að verslunarleiðangri...kannski betra að taka þetta í nokkrum smáum bitum.. frekar en að stinga allri sneiðinni upp í sig í einu.
En annars ekkert skemmtilegt að gerast..jú alltaf gaman í skólanum, en dagarnir eru annars bara orðnir að Alltagstrott (hversdagsrútína) hér í Berlín. Ég skrifaði samt verkefni um daginn sem ég fékk mikið hrós fyrir (loksins!). Nánast engar villur og innihaldið áhugavert. Áttum að skrifa smá um "lesen" (lesa), mátti vera hvað sem var út frá því. Ég er að sjálfsögðu alltaf með landkynningu og þjóðernisáróður hérna og skrifaði því smáræði um íslenskar bókmenntir, Halldór Laxness o.s.frv. Ég er svo einstök (eini Íslendingurinn) að ég fæ oft að njóta þess að vera miðpunktur athyglinnar.
Við Manon erum alltaf að bíða eftir viðunandi veðri fyrir ferðamannaleikinn góða. Annars er hún alltaf með nefið ofan í bókunum þessa dagana því hún fer í próf í næstu viku til að komast upp á mitt "level" (hún er í B2 en ég í C1). Já, það eru nefnilega fæstir í þessu bara til að leika sér eins og ég. Fyrir flesta í skólanum er nauðsynlegt að læra þýsku, annað hvort fyrir nám eða vinnu. Þess vegna er ekkert skrítið að þau taki þetta alvarlegar en ég sem er bara í þessu af einskærum nördaskap.
Sem sagt ekkert að frétta frá Berlín nema veikindi og heimþrá. Þar hafiði það, líf mitt er hreint ekki spennandi þessa dagana. Vona að mér verði batnað fyrir helgina, þá er aldrei að vita nema maður kíki á hann Knút í dýragarðinum. En kannski betra að kíkja á veðurspána fyrst... (Alveg týpískt fyrir mig að lenda í kaldasta aprílmánuði síðustu ára!) Spurning um að koma hér aftur fljótlega og upplifa Berlín án blárra handa og regnhlífar.
Jæja, nóg komið af væli og Pessimismus (svartsýni). Ótrúlegt hvað ég get skrifað mikið um ekki neitt.
Bis später (wenn ich nicht tot werde),
Lára litla
p.s. Furðusjón síðustu daga: Sjónvarpsauglýsing þar sem talandi hundur var í aðalhlutverki. Man ekki hvað var verið að auglýsa (held símafyrirtæki) en þetta var svo asnalegt að við lágum í hláturskrampa í ca. 10 mínútur. Þýskar sjónvarpsauglýsingar eru yfirhöfuð mjög asnalegar, ekki hægt að segja annað!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.4.2008 | 18:38
Heute ist ja gar kein Karneval, nur isländische Leute in Berlin.
Góðan og blessaðan,
Mánudagur til mæðu. Aldeilis var ég nú lúin þegar ég vaknaði í morgun, við Manon litum á hvora aðra og bölvuðum sjálfum okkur fyrir að vaka lengi og horfa á Pretty Woman (auf Deutsch natürlich, mjög fyndið). En hvað um það í skólann skal haldið þrátt fyrir þreytu. Margir bekkjarfélagar mínir voru greinilega á öndverðum meiði því við vorum aðeins fjögur í fyrstu kennslustund dagsins! Man ekki einu sinni hvað við vorum að læra...var svolítið útúr heiminum, hnjehnje. Annars ágætis skóladagur, fyndið að hitta liðið eftir djamm helgarinnar. Samuel pínu pirripú vegna misskilningsins um tímasetningu en sagðist hafa skemmt sé dável einn im Disco. Þegar Marie (bekkjarsystir mín) mætti kl. 11 sagði hún að næstu helgi fengi ég sko ekki að fara heim af djamminu kl. hálf þrjú..hún, Nicolas (bekkjarfélagi) og aðrir Svissarar voru að til kl. 7 um morguninn. Gott með þau greyin.
Eftir skóla héldum við Manon til Prenzlauer Berg (hverfi í austur-Berlín). Borðuðum á e-jum líbönskum veitingastað, okkur fannst það hljóma svo skemmtilega framandi. Haha maturinn var skita..en við skemmtum okkur vel. Hlógum stanslaust allan tímann (svefngalsi). Þaðan héldum við heim á leið, eða Manon fór heim að æfa danssporin sín og ég á pósthúsið. Ansi fyndið, konan sem afgreiddi mig þurfti að fletta heillengi í bæklingum til að finna verð á póstkortum til Íslands. Greinilega ekki send póstkort þangað á hverjum degi ;) Þið (þessir fáu útvöldu) getið því beðið með öndina í hálsinum eftir póstkorti, ath. samt að þau eru skrifuð fyrir svona viku :) Ahaha annað fyndið atvik...þegar við vorum að fara úr skólanum stóðum við fyrir utan skólann að tala við Nicolas (annar Nicolas) og sjáum þá koma gangandi þrjár ungar stúlkur í vægast sagt auffällig (áberandi) klæðnaði. T.d. ein í skærbleikum leggings og rauðri kápu. Manon sagði: "Ist heute Karneval, oder?" og ég hugsaði með mér: "Nei, sko hérna eru líka artífartí Spútnik-týpur, en gaman!". Svo ganga stúlkurnar framhjá okkur og ég heyri eina segja:"..æ ég var samt ekkert búin að hringa í Jökul..." Haha þær voru sem sagt Íslendingar. Ja, die Welt ist kleiner als man denkt (Heimurinn er minni en maður heldur). Nebenbei (by the way) það er BRJÁLAÐ haglél hérna í þessum rituðu orðum!
Eftir pósthúsið nennti ég ekki strax heim og ákvað að gefa Manon tíma til að æfa sig svo ég fór í Alexa Kaufhof. Verslaði bara smá en sá eftir því þegar ég uppgötvaði að evran hefur hækkað um 2 kr. síðan í gær. Glatað dæmi! Jæja, þegar ég var á leið út úr verslunarmiðstöðinni sá ég mann framundan sem var einmitt þessi artífartí týpa líka. Aftur hugsaði ég með mér: "Nei sko þessi týpa er hér líka, í þröngum gallabuxum og eiturgrænum jakka. En skemmtilegt!" Þegar ég mætti honum sá ég kunnuglegt vörumerki á jakkanum: 66°N...gat nú verið! Berlín greinilega vinsæl hjá okkur Frónbúum, enda stórkostleg borg.
Hmm lítið annað að frétta héðan í dag. Veðrið var samt æði, sólskin og 14 stiga hiti. Engar bláar hendur og jakki óþarfur. Prima! Fékk Bratwurst og Sauerkraut aftur í dag. OJ BARA! Þetta er svo vont, ég kom Sauerkrautinu varla niður..vona að ég komist í gegnum næsta mánuðinn án þess að þurfa að éta þetta aftur. Tíminn líður samt alltof hratt, helgin þaut hjá og þriðja vikan mín byrjuð! Mensch, ég er að verða hálfnuð :( Já í Berlín er gaman, gaman. Samt ýmsir smáhlutir sem verður gott að losna við. Mig langar rosalega að fá e-ð annað en Brötchen í morgunmat, mig langar í ískalt íslenskt vatn, langa sturtu og losna við mengunina sem húðin mín er ekki par sátt við. Verður líka gott að fá eitthvað annað að borða en feita matinn hérna...ég er bara orðin algjör fitubolla og ekki er það af bjórdrykkju skal ég segja ykkur! En svona er þetta, aðrir góðir hlutir bæta þessa verri upp :)
Bis bald,
Klára
p.s. Furðusjón dagsins: Maturinn á líbanska veitingastaðnum. Hann var of fyndinn. Minn leit út eins og nokkrir hundaskítar á diski, á mynd sem ég set kannski hér inn später. Við skemmtum okkur allavega mjög vel yfir þessu gríni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.4.2008 | 15:12
In Deutschland sagen die Hunden "bao, bao" und die Schafe "mek, mek".
Guten Tag meine Damen und Herrn,
Afsakið bloggleysi undanfarinna daga. Ég hef verið upptekin og einnig virðist sem áhugi ykkar sé að minnka, ef tekið er mið af athugasemdafjölda síðasta bloggs. Hvað um það, síðustu dagar hafa verið áhugaverðir og efni í heillanga sögu svo endilega búið ykkur undir langan lestur.
Föstudagur: Þetta var ansi rólegur dagur, veðrið skita eins og ávallt og mikil þreyta í enda vikunnar setti svip sinn á daginn. Eftir skóla fórum við Manon og tveir franskir piltar að borða hádegismat á voða fínum kínverskum stað. Hehe þegar kemur að hádegismat kemur glögglega í ljós að við Manon erum aldar upp við misjafna menningu. Fyrir henni er hádegismaturinn stór máltíð og finnst eðlilegt að sitja á veitingastað í 2 klst. í hádeginu. Mér aftur á móti nægir að gleypa í mig jógúrt og banana. Eftir dýrlega máltíð kíktum við aðeins í Alexa Kaufhof en hvorug okkar var í miklu stuði fyrir stórkostleg útgjöld svo leiðin lá fljótlega heim. Höfðum hugsað okkur að kíkja út með Clémence sem síðan beilaði á okkur en að lokum fór svo að Manon var heima og ég fór út með Mariönnu og Artem. Við fórum á Kneipe á Hackescher Markt sem er stutt frá heimili mínu, algjör kommaknæpa á götu sem heitir Kleine Präsidentenstrasse (Litla Forsetagata)..Þetta er ein af þeirra uppáhalds knæpum enda Artem Rússi og Marianna alin upp við minningar foreldra sinna um dásemd Sovétríkjanna þar sem þau kynntust. Nóg um það...við spjölluðum heilmikið og gott að geta loksins talað og heyrt eintóma þýsku aftur..með Manon og Clémence þarf ég að rifja upp frönskuna mína, þ.e. til að skilja, glætan að ég fari að tala frönsku stödd í Berlín!
Laugardagur: Vúhú, Ausflug nach Polen! (skemmtiferð til Póllands). Dröttuðumst á lappir fyrir allar aldir og héldum á Hauptbahnhof til að fara í ferð með skólanum til Stettin (Szczecin á pólsku). Vorum ca. 15 í hópnum og öll spennt fyrir ferð til Póllands, enda ekki á hverjum degi sem maður fer þangað. Lestarferðin var u.þ.b. 2 klst. löng og það fór ekki á milli mála þegar við vorum komin til Póllands. Fyndið að sjá öll skilti á tungumáli sem maður skilur ekki orð í en maður verður jafnframt frekar bjargarlaus. Það fyrsta sem við þurftum að gera var að skipta peningum, evrur í zloty. Btw. ef einhver er að fara til Póllands á næstunni á ég 7 zloty. Haha býst ekki við miklum viðbrögðum við þessu, aldrei neinn á leið til Póllands er það?
Við röltum aðeins þarna um bæinn, skoðuðum eins og eina kirkju sem var eiginlega það eina fallega í þessari borg. Stettin var víst ein af Hansaborgunum og var einu sinni mjög rík en í dag..úff veit ekki hvað ég á að segja um þetta. Af þessari borg að dæma skil ég vel hvers vegna Pólverjar eru fluttir út um allar trissur. Frekar mikil eymd í gangi, hús í niðurníðslu, skítugar götur og andrúmsloftið síður en svo jákvætt. Kíktum í verslunarmiðstöðina þarna enda flest ódýrt í Póllandi. Hún var það eina sem var ekki gamalt og skítugt. Röltum síðan aðeins um miðbæinn þarna, veðrið var fallegt og góð stemmning í hópnum sem samanstóð mestmegnis af Svisslendingum og Frökkum = enn á ný þakkaði ég sjálfri mér fyrir að hafa þraukað í frönskutímum. Já..ferðin til Póllands var áhugaverð en í sannleika sagt held ég að ég haldi mig bara hérna megin landamæranna næsta mánuðinn.
Á laugardagskvöldum er alltaf tilvalið að lyfta sér upp, stíga nokkur dansspor og valda sjálfum sér óþarfa heilsutjóni vegna drykkju. Það var einmitt það sem lá fyrir eftir Póllandsförina. Ég og Manon rukum heim, borðuðum síðbúinn kvöldverð og héldum síðan út á ný og hittum Clémence og Marie. Höfðum mælt okkur mót við Samuel á Alexanderplatz en svei mér þá..hann hafði misskilið tímasetninguna og fór bara einn ins Disco. Við dröttuðumst því á staðinn sem hann var, biðum heillengi í biðröð til þess eins að láta klæðskipting segja okkur að við værum zu jung (of ungar, þurfum víst að vera 21 fyrir þennan stað). Jæja hvað um það, fórum bara annað og settumst og spjölluðum. Hnjehnje, eftir smátíma settist fólk á næsta borð við okkur. Meiner Seele, þau voru íslensk! Ótrúlega skrítið að heyra íslensku en mér datt samt ekki í hug að kasta kveðju á þessa háværu landa mína. Svo ég lét bara eins og ekkert væri og hélt áfram að tala mína þýsku :)
Dagurinn í dag..hehe það hefur ekkert gerst. Leti í gangi þó veðrið hafi verið fínt. Við Manon kíktum aðeins út og ég sýndi henni Nikolaiviertel sem er orðinn einn af mínum uppáhaldsstöðum í Berlín...svo sætt og rólegt hverfi. Ætlaði að koma blessuðum póstkortunum af stað til Íslands en pósthúsin að sjálfsögðu lokuð á sunnudegi. Þau fara því á morgun, bíðið spennt. Já..síðan bara leti, heimalærdómur og vidjókvöld í kvöld. Prima sunnudagur. Hmm.. "amma" gefst ekki upp á því að reyna að fita mann. Henni miðar vel áfram og alltaf sama dekrið. Við erum sko überheppnar með heimili því það er enginn annar sem við þekkjum svona hamingjusamur með fjölskylduna sína. Gott mál fyrir okkur. Hundurinn er hins vegar að gera mig völlig verrückt! Þetta helv. kvikindi hlýðir engu og horfir á mann með svo heimskum svip að ég hef sjaldan séð annað eins. Mun verða fegin að losna við hana.
Gott í dag, haldið áfram að kommenta af krafti. Var að setja inn nokkrar nýjar myndir, búin að vera algjör Japani hérna í Berlín svo myndasýning við heimkomu mun taka dágóðan tíma. Fyrirsögn dagsins var brandari gærdagsins, við hlógum svo mikið að þessu í lestinni að við hrundum næstum á gólfið. Það er nefnilega svo að á þýsku segja hundar ekki "voff, voff" eins og á íslensku og frönsku heldur "bao, bao" og kindurnar segja "mek, mek". Sehr komisch :)
Risaknús til allra,
Lára
P.s. Furðusjón helgarinnar: Til að byrja með sá ég rosalega feitan dyravörð á föstudagskvöldið. Ég hugsaði með mér að það yrði ekki einfalt að komast framhjá honum, hann myndi bara standa í dyragættinni og fylla algjörlega upp í hana! (entschuldigen sie, veit það er ljótt að gera grín að fólki..ég er bara svona illa innrætt). Í gær var furðusjón dagsins klárlega Stettin..og þar sá ég líka eldgamlan kall í pínupínulitlum bíl (svona eins og Ómar Ragnarsson á)..mjög skondin sjón.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2008 | 20:07
Ein echt fauler Sack!
Hallo Liebes,
Heute ist mein Leben besser geworden..Gott sei Dank :) (Í dag er líf mitt betra, Guði sé lof). Ég var ekki pirripú þó dagurinn hafi ekki verið jafn "effizient" og ég hafði vonað. En það kemur dagur eftir þennan dag og ég bíð hvers dags með barnalegri jólaeftirvæntingu. Das Leben in Berlin ist doch fabelhaft! (Lífið í Berlín er jú frábært).
Allavega...langur skóladagur í dag (trúi ekki að það vikan sé strax að enda komin) og enn og aftur áhugaverður. Í dag ræddum við mikið um ímynd útlendinga af Þýskalandi. Hvort þeir væru kurteisir, stundvísir, góðir Autofahrer (bílstjórar) o.s.frv. Flestir voru sammála um að þjónustufólk hér sem og aðrir mættu brosa meira, þjónustan væri ein bisschen "kühl" (kuldaleg). Ég hins vegar gat ekki kvartað yfir neinu varðandi þetta mál, enda kuldanum vön. Eins og ávallt var ég eini fulltrúi N-Evrópu í þessum hópi og þurfti því að verja kuldalegt viðmót okkar fyrir tilfinningasömum Ítölum sem og Ameríkönunum. Svo kom að því að drykkja var nefnd í þessari umræðu. Þjóðverjar drekka mest af öllum í heiminum ef reiknuð er út ársneysla áfengis á hvern haus. Það er víst vegna þess að þeir drekka á hverjum degi en hóflega, ólíkt okkur Íslendingum sem drekkum bara á lau. og sun. í óhófi :) Hvort ætli sé skemmtilegra? ;) Ég komst líka að því að Þjóðverjar eru afskaplega hræddir við orðið "Patriot" (föðurlandsvinur). Báðir kennararnir mínir sögðu að þær væru að sjálfsögðu stoltar af því að vera Þjóðverji en hvorug taldi það sem föðurlandsvináttu. Önnur sagði m.a.s.: "..ich bin doch kein Patriot um Gottes willen." Mér fannst þetta frekar leiðinlegt því af hverju ættu Þjóðverjar ekki að mega vera stoltir af sínu landi og þjóð eins og aðrir?
Eftir þessa greiningu á þýskri þjóðarsál tók við heimsókn í den Dorotheenstädische Friedhof. Þar kíktum við á grafreiti ýmsra frægra Þjóðverja en Bertolt Brecht var þó aðalviðfangsefnið enda erum við að lesa sögu eftir skáldið góða. Kuldi hrakti hópinn inn á kaffihús í grenndinni og verð ég að segja að það var mjög "komisch" (skrítið) að sitja með kennaranum og súpa á kaffi. Eitthvað sem maður er ekki vanur frá Fróni hinu góða.
Jæja, eftir skóla héldum við Manon heim á leið með Clémence (bekkjarfélaga Manon) í eftirdragi. Smá heimalærdómur og síðan tók við safnaleiðangur sem breyttist í safnleiðangur. Sumt fólk er latara en annað, það verður að segjast. Safnið sem við sóttum heim var Altes Museum. Þar er egypsk list og forn-grísk. Litli listasögunördinn í hjarta mínu var glaður svo mikið get ég sagt ykkur. Þarna sá ég m.a.s. ýmis verk sem ég lærði um í SAG163 hérna í den ;) Hnjehnje það er ákaflega gaman að geta farið inn á safn og þurfa ekki að lesa stórt útskýringarplagg um hvað Amarna-tíminn er..heldur einfach vita það ;) Svona er litla nú klár! Minn indæli herbergisfélagi er immer ákaflega þreytt og svöng og við ákváðum því að hlaupa yfir á Subway áður en lengra væri haldið. Subway heimsóknin tók hins vegar ein Ewigkeit (eilífð) svo eftir það tók því ekki að fara á neitt safn, ekkert gaman að þurfa að hlaupa um. Já..held að nächste Donnerstag werde ich allein zum Museum gehen (næsta fimmtudag fer ég ein á safn). Sumir hafa einfaldlega ekki jafn mikinn áhuga og ég..allt í lagi með það.
Ach so. Ég ætla að vera ljúf systir og binda enda á þrotlausar vangaveltur minnar ástkæru systur um eðli þáttarins "Nur die Liebe zählt". Fyrst kemur þýðing á nafninu: "Aðeins ástin skiptir máli". Á skjánum birtist skælbrosandi hübscher Moderator (myndarlegur þáttastjórnandi) sem stendur á sviði (svona Opruh-talkshow myndver). Hann byrjar að segja sögu af Kurt og Gertrud sem hafa ekki séð hvort annað í 3 ár. Svo sýnir hann myndband þar sem hann heimsækir Kurt og heyrir sögu hans. Kurt og Gertrud voru ákaflega hamingjusöm fyrir þremur árum, ástfangin upp fyrir haus og allt var prima. Síðan hættu þau skyndilega saman. Kurt er enn verliebt (ástfanginn) af Gertrud og vill hana aftur. Ahh nú kemur sko twist! Der hübsche Moderator er búinn að hafa samband við Gertrud sem bíður þess að tala við Kurt. Hann játar ást sína og hún segir honum að hún vilji ekkert með hann hafa. Endir. Stundum endar þetta þó vel, der Moderator leiðir saman elskendur sem búa í sitthvorri heimsálfunni og í stúdíóinu hrynja hamingjutár. Sem sagt þessi "furchtbar" þáttur snýst um það að hjálpa fólki þegar kemur að ástinni. Svo væmið að þetta jafnast á við lokaþátt af Bachelor. Uggh og þetta horfir fólk á á sunnudagskvöldi, þar á meðal ég til að hlæja mig máttlausa.
Helgin verður eflaust spennandi. Ich fahre nach Polen am Samstag (ég fer til Póllands á laugardaginn). Það er nefnilega Ausflug (skemmtiferð) með skólanum til Stettin (svo heitir borgin á þýsku) sem er víst 7. stærsta borg Póllands en gömul og merkileg. Gaman að því að geta sagst hafa farið til Póllands ;)
Bis später meine Lieblinge,
Die lebhafte Lara
p.s. Furðusjón dagsins: Mensch þetta er orðið echt erfitt! Hmm furðusjón dagsins...forn-egypskt brauð. Svo sá ég líka mann með hár niður á mitt bak...en það er víst ljótt að gera grín að fólki ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2008 | 18:01
Noch ein Monat :)
Ach so,
Í dag er akkúrat mánuður þangað til ég sný aftur á Frónið. Veit að þið bíðið þess dags með eftirvæntingu :)
Dagurinn í dag var annars ömurlegur. Skóladagurinn ágætur en fátt gott um þennan dag að segja. Fyrsti letidagurinn minn í Berlín. Maður verður víst að eiga þannig daga líka fyrst maður er ekki bara hérna sem túristi. Veðrið bauð heldur ekki upp á neitt nema inniveru. Við Manon fórum á Potsdamer Platz eftir skóla vopnaðar regnhlífum en þrátt fyrir vettlinga og allt litu bláu hendurnar dagsins ljós á ný. Við gáfumst því upp á túristaleik (sem hún virðist yfirhöfuð ekki hafa mikinn áhuga á) og héldum heim undir teppi. "Amma" fagnaði okkur með rjúkandi heitu te og kökusneið.
Já, síðustu dagar tíðindalitlir og leiðinlegir. Ætla að bæta úr því á morgun og fara í langþráðan safnaleiðangur. Hvort sem ég þarf að fara ein eða að herbergisfélagi minn hætti tuðinu í smástund og komi með. Fyrr má nú vera manneskja..þú ert í Berlín! Enjoy it! Afsakið leiðinlega bloggfærslu, ich bin sehr schlecter Laune heute :( Manon er alls ekki slæm, ég er bara pirruð út í allt þessa dagana :)
Hmm, gott í dag. Reyni að koma með einhverjar krassandi sögur næstu daga :) Þetta letilíf gengur ekki í Berlín, ég geymi það fyrir sveitasæluna..hnjehnje!
Stórt stubbaknús,
Lára pirripú
p.s. Furðusjón dagsins: C.S.I. Miami. Horatio Cane er jafnvel enn svalari þegar hann talar þýsku! haha so ein toller Mann! (þetta fattar enginn nema að hafa e-n tíma horft á C.S.I Miami...Elín þú ert að lesa mig er það ekki?)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.4.2008 | 18:36
Du bist ein Arschloch!
Hallo...wie geht's?
Alls ekki viðburðaríkur dagur í dag, frekar afslappaður sem er nú allt í lagi inn á milli. Langur skóladagur, til 14:30 en lærdómsríkur eins og ávallt. Bættust m.a.s. 3 nemendur í hópinn..gaman að því þó þau stoppi nú stutt við, ekki nema viku. Í síðasta tímanum vorum við bara 4 svo það gerðist ekki mikið, nema að kennarinn (sem er áhugasöm um Ísland) bað mig um að segja aðeins frá Íslandi. Svo ég þurfti að halda eine kleine Rede über Island. Lýsti því náttúrulega eins og algjörri paradís norður í hafi. Já, eins og maðurinn sagði: "Distance makes the heart grow fond", svo sennilega þykir mér vænna um ykkur öll á meðan ég er hér.
Dagarnir eru orðnir ansi hversdagslegir núna. Ég er búin að skoða flesta túristastaðina sem mig langar að sjá, þó að sjálfsögðu sé fjöldinn allur af stöðum eftir. Hér er sko enginn tæmandi listi af "activities". Þið afsakið sletturnar, ég man ekki nein orð lengur á neinu tungumáli. Tungumálin eru öll orðin að einhverju skrítnu samansulli í heilanum á mér svo útkoman verður bara bull. Ég á m.a.s. erfitt með að glósa ný orð í skólanum því þó ég viti nákvæmlega hvað þau þýða er íslenska orðið fokið út í veður og vind. Ég er því orðin ansi dugleg við að nýyrðamyndun, t.d. bjó ég til lýsingarorðið "kaupsýslinn" í gær. Það er mín þýðing á "geschäftstüchtig" sem þýðir að vera slunginn kaupsýslumaður. Gaman að þessu.
"Sambúðin" með Manon gengur ágætlega, við tiplum þó enn á tám í kringum hvora aðra svona á meðan við erum að kynnast. Hehe hún var með brjálæðislegar harðsperrur í dag eftir spazieren (spássera) gærdagsins. Við röltuðum nú bara um í ca. 2-3 klst. sem henni fannst ansi mikið en ég er orðin svo vanur strunsari að mér fannst þetta ágætt. Engar harðsperrur í morgun og "amma" hló ansi mikið að þessu. Sagði að ég væri svo "gut zum Fuß" (góð á fæti) að ég yrði að þjálfa Manon svo hún yrði ekki jafn illa haldin í nánustu framtíð.
Mjög skrítið.. en eins og ég sagði í gær finnst mér tíminn vera að hlaupa frá mér. Ég er farin að hugsa um alla hlutina sem ég mun sakna. Fékk snilldarhugmynd í dag, ætla að giftast Tyrkja, flytja hann með til Íslands og opna kebab-stað á Ingólfstorgi. Hann mun passa vel við hliðina á Hlölla. Hnjehnje! Svo er algjör nauðsyn að gera íslenska útgáfu af "Nur die Liebe zählt". Ég ætla ekki að útskýra út á hvað þessi þáttur gengur, þið fáið að velta því fyrir ykkur næsta mánuðinn...Elín giskaði á að þetta væri eitthvað í líkingu við "Sturm der Liebe" sem er ekki rétt. Þetta er ekki sápuópera og yfirhöfuð ekki leikið sjónvarpsefni!
Nah gut, þetta er orðin ansi löng bloggfærsla um alls ekki neitt.
Ich wünsche euch einen schönen Abend,
Lára
p.s. Furðusjón dagsins: Afleysingakennari dagsins. Hann var bara of furðulegur Þjóðverji...hehe og heitir Tobias í þokkabót...Tobias..Tópas? Ætli maður megi heita Tópas á Íslandi?
Bloggar | Breytt 9.4.2008 kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.4.2008 | 18:22
Berlin = naße Erde
Guten Abend,
Ach so, dagur 10. hér í borg. Get ekki sagt að hann hafi verið ánægjulegur hvað varðar veðrið. Tvímælalaust kaldasti dagurinn síðan ég kom, svo kalt að ég þurfti að blikka augunum nokkrum sinnum til að athuga hvort ég væri ekki örugglega stödd í Berlín. Já, bláar hendur hérna á meginlandinu gott fólk!
Auf jedenfall, skóladagarnir alltaf jafn skemmtilegir og ég læri sífellt eitthvað nýtt. Enn og aftur rætt um peninga og ég alltaf miðpunktur athyglinnar þegar kemur að verðsamanburði. Það er nefnilega mjög spennandi að vita hversu dýrir hlutirnir eru á Íslandi. Í seinni tímanum fengum við fræðslu í Landeskunde (þekkingu á landinu). Það var einkar áhugavert og komst ég meðal annars að því að Berlín þýðir í raun "blaut jörð". Vissuð þið t.d. að múslí var einu sinni heit kornsúpa sem þróaðist í morgunkorn? Þetta lærði ég í skólanum í dag! Já, tungumálanám snýst ekki bara um réttar fallbeygingar og orðaforða heldur einnig um uppruna málsins og fólksins sem það talar.
Jæja að öðrum spennandi málefnum. Herbergisfélagi minn, sem ég hef beðið með mikilli eftirvæntingu, kom loksins í gær. Hún heitir Manon, er jafngömul mér og kemur frá Sviss (frönskumælandi hlutanum Elín, þess vegna er hún að læra þýsku). Ég er afskaplega ánægð með að hafa loksins almennilegan félagsskap sem nennir að strunsa með mér um borgina. Í dag gat ég verið algjör besservisser og sagt henni frá öllu sem ég var búin að skoða..voða gaman að vera klár :) Allavega, sökum kulda gáfumst við upp á öllu strunsinu úti og kíktum inn í Alexa Kaufhof. Ég held svei mér þá að ég fari að versla á næstu dögum..enda gengið í góðu skapi um þessar mundir.
Mér finnst tíminn líða ansi hratt núna, frekar asnaleg tilfinning að það sé "bara" mánuður eftir! Ég er m.a.s. farin að skipuleggja dagana núna svo ég hafi tíma fyrir allt sem ég ætla að gera. Við Manon ræddum einmitt um það að skrifa lista svo ekkert gleymist. Svo er ég alltaf að bíða eftir góða veðrinu til að fara í dýragarðinn og í bátsferð á der Spree..en það lætur bíða eftir sér. Amma er yfirmáta glöð yfir að fá þriðju píuna á heimilið, hún dekrar við okkur sem aldrei fyrr. T.d. vorum við nýbúnar að borða kvöldmat áðan og þá kemur hún með köku handa okkur...eins og maður sé ekki nógu feitur fyrir! Btw. ég fékk Bratwurst og Sauerkraut í matinn í gær...hnjehnje voða gaman að láta alltaf vita hvað maður er að borða! En tíminn líður hratt og ég veit að fyrr en varir verð ég komin aftur heim í sveitina og ævintýrinu lokið :( Þá á ég eflaust eftir að fá Heimweh til Berlínar :( Ég er alveg viss um að hingað kem ég aftur fljótlega. Hópferð til Berlínar? Anyone?
Jæja, nóg komið af bulli í dag. Verið dugleg að kommenta og láta í ykkur heyra, það gleður alltaf litla hjartað að vita að einhverjir hugsa til manns :)
Bis morgen,
Lára
P.S. Furðusjón dagsins: Stelpur í stuttbuxum í skítakuldanum sem var í dag..was ist mit Leute los? Hmm kannski voru þær bara íslenskar ;) Annars fer furðusjónum fækkandi, það er orðið erfitt að finna eitthvað til að setja hérna!
Bloggar | Breytt 9.4.2008 kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.4.2008 | 14:47
Nächste Station: Friedrichstraße, Ausstieg rechts.
Sehr geehrten Damen und Herren,
Fjúff..komið ykkur vel fyrir því miklar líkur eru á að þessi færsla verði í lengra lagi. Helgin er búin að þjóta hjá og á morgun byrjar önnur vikan mín í skólanum. Lífið hérna er eiginlega komið í fastar skorður og Berlín orðin hluti af mínum Alltag (hversdagur). Unter den Linden er hætt að vera eitthvað VOHÓ dæmi og Alexanderplatz orðið nokkuð heimilislegt. Sem er gott því mér líður ekki lengur eins og einum af þessum milljón og einum túrista sem rölta um í stórum hópum...ég bý hérna, auf jedenfalls (a.m.k.) í smástund :)
Jæja, helgin! Fyrirhugaður næturlífskönnunarleiðangur föstudagskvöldsins datt upp fyrir sökum þreytu allra aðila sem áttu hlut að máli. En hann frestaðist þó bara fram á laugardag. Ég naut þess að sofa aðeins lengur á laugardaginn en hélt síðan út í kuldann og alla leið að Schloss Charlottenburg. Ég hafði aldrei farið svo langt "að heiman" og þurfti að taka U-Bahn í 30 mín með fullt af brjáluðum Werder Bremen og Herthu Berlin (fótboltalið) aðdáendum á leið á Olympia Stadion. Gaman að því.
Schloss Charlottenburg er barokkhöll frá 18. öld og ákvað ég í gær að ef Fasanenstraße verður ekki heimili mitt, þá verður það þessi blessaða höll! Ég gekk á milli herbergja og gat ekki hugsað neitt annað en VÁ og bölvað því að hafa ekki verið prinsessa í Prússlandi. Því miður (sem betur fer?) má ekki taka myndir þarna inni, ég hefði fríkað út með das Fotoapparat (myndavél). Fyrir utan höllina er líka stórglæsilegur garður sem eflaust er miklu fallegri yfir sumartímann en nægði samt til að ég stæði þarna agndofa. Já, það er klárt mál að ég reyni að semja við umsjónarmenn hallarinnar um að fá að búa þarna og leika Sophie Charlotte (drottninguna sem höllin heitir eftir) til að glæða safnið lífi...eða þá að framtíðareiginmaður minn verður nógu ríkur til að byggja handa mér barokkhöll.
Eftir þessa ánægjulegu heimsókn ákvað ég að halda heim á leið þar sem veðrið var ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Ég var svo vitlaus að ætla að skipta um lest á Hauptbahnhof..ég villtist nú bara þar, en viti menn ég fann búðir! Ég komst þó að lokum heim, nokkrum evrum fátækari. Meira af búðum..alveg síðan ég tók þátt í markaðskönnuninni þarna um daginn hef ég verið að leita að Alexa Kaufhof sem daman sagði mér að væri þarna rétt hjá. Jæja, ég fann þetta aldrei fyrr en í dag og skil eiginlega ekki hvernig þetta gat farið fram hjá mér. Kíkti þarna inn áðan, þetta er RIESENGROß og litli búðabrjálæðingurinn í hjarta mínu hrópaði af kæti á meðan ég fann VISA-kortið skjálfa af hræðslu í töskunni minni. Einhvern daginn áður en ég fer heim mun ég ganga þarna út kát í bragði :)
Um kvöldið var stefnan sett á næturlífið svo ég, Marianna, systir hennar og Rússinn héldum af stað út í rigninguna. Ég hélt e-n veginn að Rússinn héti Anton eða e-ð álíka en það er bara ekki rétt. Ég næ ekki nafninu hans en það hljómar eins og orðið Aktien (sem á þýsku þýðir hlutabréf) ;) hehe svo ég ætla bara að kalla hann það hér eftir (a.m.k. á þessum vettvangi). En kvöldið var annars ansi skemmtilegt og óþarfi að hafa fleiri orð um það :)
Í dag hefur fátt markvert gerst. Berliner Halbmarathon (hálfmaraþonið í Berlín) var í dag, svo torgið fyrir framan Rotes Rathaus var undirlagt af sölubásum og alls konar drasli vegna þess. Ég ákvað að taka strunsarann góða á þetta og strunsaði alla leið að Siegesäule sem er já..súla sem er innangeng og voða fallegt útsýni þaðan. Ég ákvað reyndar að geyma það til betri tíma því veðrið bauð ekki upp á tækifæri til að njóta fallegs útsýnis og kostar alveg 1, 50 evrur að fara þarna upp ;) Gatan sem liggur á milli Brandenburger Tor og Siegesäule var lokuð í dag vegna maraþonsins svo það var einkar áhugavert að labba þarna áðan. Venjulega er brjáluð umferð eftir þessari götu en núna gat ég labbað eftir henni miðri og það eina sem ég þurfti að óttast var að verða fyrir reiðhjóli (sem er alveg möguleiki á hérna, þau eru svo mörg). Ósköp indælt. Síðan strunsaði ég nú bara heim aftur, fékk mér kaffi og hér er ég nú. Heima í leti..enda sunnudagar til þess ætlaðir, sérstaklega þegar veðrið er "à la Ísland". Annars er herbergisfélagi minn væntanleg í dag, fáið fréttir af henni í pistli morgundagsins. Sonst etwas..já hundkvikindið er að gera mig brjálaða. Hoppar alltaf á mann og langar að leika...blöde Hund (heimski hundur), mun ekki sakna hennar svo mikið er víst.
Jájá svona er lífið í Berlín í dag, alltaf sama stuðið hér :)
Bis später,
Lara
p.s. Furðusjón dagsins: Sveiattan ég hef bara ekki séð neitt síðustu daga sem ég get talið furðusjón :/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2008 | 18:30
Dicke Kinder sind schwerer zu kidnappen.
Nah ja meine Lieblinge in Island (und ein in Barcelona;)),
Heute geht's gut. Svolítið erfitt að vakna í skólann í morgun og ekki batnaði það þegar ég kom á U-Bahn stöðina mína hérna í götunni. Var búin að bíða í ca. 5 mín þegar kemur tilkynning um e-ð sem ég skildi ekki, nema það að U-5 myndi ekki koma...svo ég mætti aðeins of seint í skólann. Sem kom svo sem ekki að sök. Fyndið hvað sumir í bekknum mínum nenna ekki að mæta í skólann kl. 9 á morgnanna og koma bara í tímann kl. 11..þetta er nú ekki langur skóladagur. Hehe kannski væri ég eins ef ég væri búin að vera hér í 2 mánuði, held samt ekki því "amma" myndi aldrei láta mann komast upp með það ;)
Eftir skóla rölti ég um hverfið hjá skólanum. Þar er Neue Synagoge (Synagoge = bænhús gyðinga...man ekki hvað er orðið yfir það), Hackescher Höfe (gamlir "courtyards"..man ekki heldur orðið yfir það, sem nú hýsa fullt af verslunum og veitingastöðum), Heckmann Höfe (líka "courtyard"). Ég féll alveg fyrir Heckmann Höfe, það er eins og vin í eyðmörkinni, svo rólegt og yndislegt að mér fannst ég hreint ekki vera í miðri stórborg.
Danach, fór ég á DDR-safnið (safn um Austur-Þýskaland). Það var ansi áhugavert, fullt af upplýsingum og hlutum frá DDR. M.a.s. hægt að ganga þarna inn í týpíska austur-þýska íbúð og horfa á Derrick! Þegar ég sagði Christel að ég hefði farið á þetta safn sagði hún: "Jájá þetta safn er ágætt en þeir ýkja alltaf allt, DDR var ekkert svona slæmt." Maður ætti kannski að trúa manneskju sem hefur búið á Karl-Marx-Allee í 40 ár.
Já, annars hefur fátt merkwürdig gerst í dag, engin sérlega fyndin atvik, ekki talað við neitt skrítið fólk nema einhverja brjálaða dýravini. "TIERE SIND KEINE LEBENSMITTEL" var mottóið þeirra (Dýr eru ekki matvara). Ég er svo skrítin að ég stoppaði og hlustaði á þessa crazy konu af fúsum og frjálsum vilja. "Sind Sie Tiere Freund?" spurði hún og hélt svo ræðu um það að maður þyrfti að hlúa vel að gæludýrunum sínum. Spurði svo hvort ég vildi skrifa undir einhverja yfirlýsingu um að ég væri dýravinur. Það afþakkaði ég pent...veit ekki alveg hver tilgangur þeirra var með þessu :/
Annars finnst mér bara gaman hvað allir fylgjast grannt með mér, gaman að fá "athugasemdir" og frábært að lesendahópurinn skuli fara sístækkandi. Btw. ég lofaði fáeinum útvöldum póstkorti á næstunni...það gæti orðið svolítil bið í það...pósturinn er nefnilega í verkfalli :)
Sjáum hvað kvöldið ber í skauti sér, planið var amk. að kíkja á næturlíf Berlínar með Mariönnu og systur hennar.
Tschüss,
Die Lara
p.s. Furðusjón dagsins: Veit þetta hljómar afskaplega illa og maður á ekki að telja útlit fólks sem "furðusjón" en ég sá samt dverg á hjóli í dag. Þá meina ég sko dverg, hún var örugglega ekki nema 50 cm á hæð..og á hjóli. Ég reyndi að upphugsa eitthvað annað en dvergurinn kom bara alltaf aftur upp í hugann :) Mig grunar að litla bróður sé skemmt yfir þessu ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)