Færsluflokkur: Bloggar

Es gibt Männer, die eine anziehende Wirkung haben.

Guten Abend..ein wirklich shöner Tag heute..ja?

Að minnsta kosti hjá mér.  Veðrið lofaði ekki góðu í morgun, skýjað og rigning en það rættist úr þessu og þegar skólanum var lokið var sólin farin að skína. Skóladagurinn var annars ansi skemmtilegur, litla orðin dugleg að tala og loksins eitthvað af viti farið að koma út úr henni (af viti=skiljanleg þýska). Í fyrsta tímanum af þremur vorum við að læra um Lebenshaltungskosten (mánaðarleg útgjöld til að lifa). Kennaranum fannst ansi sniðug hugmynd að láta okkur reikna út okkar eigin mánaðarútgjöld. Hehe í samanburði við Berlín og Nebraska kom Ísland ansi illa út. Ég slumpaði nú bara á útreikningana og miðaði við að evran væri 100 kr. en þeim fannst algjör geðveiki að lífið kostaði mig 1000 evrur á mánuði Sem er svo sem satt miðað við tölurnar sem komu frá hinum..greinilega ódýrt að vera til í Nebraska.

Í hinum tímunum horfðum við á ansi skondna þýska mynd sem heitir "Sonnenallee". Hún fjallar um líf unglingsstráks í byrjun 7.áratugarins sem býr í Austur-Berlín. Hann býr í götunni Sonnenallee sem var bæði í Austur-og Vestur-Berlín því múrinn stóð í gegnum miðja götuna. Allavega..nokkuð gaman að þessari mynd þó hún sé kannski ekki trúverðugasta heimildin sem hægt er að finna um lífið í DDR.

Eftir skóla gerði ég ekki margt því ég var ekki búin fyrr en 14:30 og ætlaði að fara snemma heim í kvöldmat því á fimmtudagskvöldum er frítt inn á ríkisreknu söfnin (sem eru þessi stærstu og bestu svo um að gera að nýta sér þennan möguleika). Aaa já..alltaf ég að deila með ykkur reynslu minni af þýskum skyndibita en íverkefni dagsins var Döner-Kebab. Get ég með sanni sagt að döner er algjörlega málið..schmeckt sehr gut, ja :) Síðan gerðist ég über-túristi, keypti nokkur póstkort og settist á Starbucks að skrifa krúttlegar kveðjur til nokkurra útvalda. Svo einhverjir geta átt von á gleðilegri póstsendingu á næstunni :)

Í kvöldmat fékk ég "Schweinebraten". Þeir sem hafa lært þýsku kannast væntanlega við þetta úr kennslubókunum..ég notaði þetta orð á öllum prófum og verkefnum þar sem ég þurfti að skrifa um mat. "Ich bezahle den Schweinebraten und das Glas Rotwein." Sehr gut, ja...schmeckt gut. Þegar ég var búin að borða komu Marianna og systir hennar sem er í heimsókn heim. Við ákváðum að vera bara samferða í safnaleiðangur og var ferðinni heitið á Jüdisches Museum. Því miður var verið að loka þar þegar við komum en við strunsuðum þá bara yfir á Checkpoint Charlie sem er rétt hjá. Það var ansi áhugavert safn, mikið að lesa en já, áhugaverðar upplýsingar um hversu langt fólk gekk til að komast yfir til Vestur-Berlínar...ganz schrecklich (frekar hræðilegt).

Hmm eiginlega gerðist ekkert fleira í dag, bara rólegur og góður dagur. Þó það sé asnalegt að segja það en þá er þetta fyrsti dagurinn sem hugsunin "Vá þetta er of erfitt!" kom ekki upp í kollinn á mér. Samt engin Heimweh en eins og fólk segir þá er tungumálið lykillinn að öllu. Nú þegar ég er farin að geta tjáð mig betur þá er maður miklu kokhraustari. Gaman að þessu :)

Mit herzlichen Grüßen,

Lára klára

p.s. Furðusjón dagsins: Útvarp í tannkremstúpu. Já ansi margt þarna á Checkpoint Charlie safninu...;)  Útskýring á fyrirsögn dagsins: Þetta sá ég líka á póstkorti. Það fylgdi þessu sko myndasaga. Á fyrstu myndinni er nakin kona og maður kemur gangandi í áttina til hennar. Hann er ansi ljótur greyið svo á næstu mynd er hún búin að skella sér í föt. Þetta þýðir sem sagt: Það eru til menn sem hafa þau áhrif að þú klæðir þig í (hehe maður myndi kannski bara kalla þetta "öfug áhrif"). 

 


Die sind nicht nacken, nur barfuß bis unter die Arme...haha

Guten Abend,

Ég verð greinilega að standa mig í stykkinu og blogga þar sem fólkið heimtar fleiri gamansögur til að lyfta sér upp í grámyglunni fyrir norðan. Verð að viðurkenna að þreyta kom í veg fyrir blogg í gær svo það verður bara tvöfalt lengra í dag....ef ég man eitthvað hvað ég gerði í gær :/

Hmm... annar skóladagurinn var ágætur. Við komumst leiðar okkar í skólann án vandkvæða þar sem verkfallið góða stóð víst ekki nema í 30 mín...ágætis verkfall það. Í skólanum gerðist svo sem ekki margt, ég reyndi að vera dugleg að tala og það gekk svona lala...er allt að koma. Skóladagurinn var til 14:30 í gær því ég er í svokölluðum Intensiv-Kurs. Þá erum við til 14:30 á þri. og fim í stað 12:30. Alls ekki langur dagur, þetta eru bara tveir 90 mínútna tímar með 30 mínútna pásu. Því nægur tími til að leika.  Eftir skólann hélt ég svo niður Friedrichsstraße að Hugendopel (Hogenbupel?..dubel?..bopel?) til að kaupa blessuðu bókina. Jájá ég mæti þarna með minn miða og segist hafa pantað hér bók. Afgr.daman nær í bókina mína og segir svo með glettnum svip: "Sie haben ein ganz ausgewöhnlicher Name." Sem þýðir: "Þér berið ansi óvenjulegt nafn." Ég kinkaði kolli og svaraði því til að ég væri bara íslensk..ekki asnaleg. 

Frá Hugendopel ákvað ég að skella mér til "Vestur-Berlínar". Ég var ekkert búin að fara þangað þar sem það er úr göngufæri og mein Monatskarte (mánaðarmiði fyrir allt samgöngukerfið innan Berlínar) gildir bara í apríl. Ég er of löghlýðin til að svindla mér í lestina (nema einu sinni í skólann fyrsta daginn)..það er samt frekar auðvelt því þú þarft hvergi að sýna miðann þinn eða fara í gegnum e-ð hlið eins og í París. En betra að hafa hann við höndina ef óeinkennisklæddir "miðaverðir" skyldu verða á vegi þínum. Allavega, "Vestur-Berlín" var áfangastaðurinn og ég stökk út úr S-Bahn hjá Zoologischer Garten (dýragarðurinn..með Knut). Þó það sé kannski fáránlegt að segja það, þá fannst mér ég komin í aðra borg. Þarna var BRJÁLUÐ umferð, enginn sósíalistískur arkítektúr og miklu fleiri Tyrkir....(ekki að ég hafi e-ð á móti þeim). Ég byrjaði á því að skoða Kaiser-Wilhems-Gedächtniskirche, eða það sem er eftir af henni því hún var því sem næst eyðilögð í 2. Welt Krieg (seinni heimsstyrjöldinni). Haha...æ nú byrjar grínið. Þegar hér er komið við sögu var ég orðin ansi hungruð og sá þarna rétt hjá Imbiss (lítill bás, vagn eða hvað það nú kallast sem selur pylsur, döner kebab, drykki eða e-ð svona sull til að grípa með sér) sem seldi Curry-Wurst. Ég var semsagt hugrökk og fékk mér Curry-Wurst. Mæli ekki með því, þetta eru ógeðslegir pylsubitar sem drekkt er í tómatsósu og karrý (og að sjálfsögðu Brötchen með). En ágætis lífsreynsla þó maginn hafi verið í hnút.

Næst ætlaði ég að rölta niður Ku'Damm (risaverslunargata) en satt best að segja þurfti ég að rölta um nokkrar götur til að finna hana, því allar göturnar þarna í kring voru risastórar með fullt af búðum. En það hafðist að lokum og ég labbaði eins langt niður Ku'Damm og ég nennti, sem tók ca. klst. Fer aftur þarna að versla þegar (ef) að krónan kemst einhvern tímann í lag. Fann líka götuna sem ég ætla að búa á þegar ég verð stór, eða búin að giftast ríka Þjóðverjanum sem á vínekru og kastala. Hún heitir Fasanenstraße, er rétt hjá Ku'Damm en svo róleg og yndisleg að ég missti andann um stund. Ótrúlega krúttleg gata. Man ekki hvað ég gerði meira í gær...var amk. þreytt eftir alla gönguna og góða veðrið (svo ég nennti ekki að blogga)

Í dag var ömurlegt veður, rigning og sól til skiptis. Í skólanum lærðum við orðaforða über sjónvarpsefni o.s.frv. Mér fannst ég geta talað meira en í gær svo ég vona að það haldi bara áfram þannig. Ég þurfti líka að halda smá tölu um íslensk nöfn þar sem einn kennarinn er sehr interessiert für isländisch (hefur mikinn áhuga á íslensku). Voða gaman að því. Eftir það tók ég S-Bahn að Potsdamer Platz, er nokkuð góð í því að finna rétta brautarpalla þó þetta sé soldið flókið enn þá. Ætlaði að skoða mig aðeins þarna um í nágrenninu þar sem eru söfn og kirkja sem að utan lítur út fyrir að vera gömul og merkileg en þegar inn er komið...isspiss..ekki einu sinni gömul. En þá kom Regenschauer og ég varð hundblaut, ákvað hvort eð er að geyma söfnin til einhvers fimmtudagskvöldsins þegar frítt er inn. Ágætt að spara þessar 5 evrur í e-ð annað. Blaut og hálffúl hélt ég heim en var fljótt farin út aftur því sólin byrjaði allt í einu að skína. 

Fór í Der Dom og það eina sem ég get sagt um hana er VÁ! Ekkert smá falleg kirkja og riesengroß (risastór). Eyddi dágóðum tíma í að taka myndir og vera nörd, glápandi á súlurnar og ýmislegt sem ég lærði um í listasöguáfanganum hérna í den. Það er líka hægt að fara upp í die Kupel (hvolfþakið) og þaðan er ágætis útsýni yfir borgina. Eftir þessa áhugaverðu skoðunarferð var byrjað að rigna aftur svo ég leitaði skjóls á Starbucks á Alexanderplatz sem ég hef nú tekið ástfóstri við. Aaaa gleymdi annarri mikilvægri matarlífsreynslu. Á Alexanderplatz stendur markaður, eiginlega Flohmarkt (flóamarkaður) en er þarna vegna páskanna (þó þeir séu löngu liðnir). Á þessum markaði er hægt að fá ýmislegt að eta og þar á meðal Wurst af ýmsu tagi. Næst á smökkunarlistanum var Rostbratwurst. Hún var nú aðeins skárri en karrý-gumsið en hvað útlitið varðar er þetta eiginlega eins og "tissemand" í brauði. Jæja, þegar stytti upp rölti ég yfir í Nikolai-Viertel sem er elsti hluti Berlínar. Ef ég get ekki búið í Fasanenstraße þá ætla ég að búa þar, gamalt og krúttlegt hverfi sem stendur við der Spree (ána sem liggur í gegnum borgina).

"Amma" er söm við sig, hefur áhyggjur af því að maturinn sé ekki góður, of saltur o.s.frv. Áhugaverðar umræður við morgunverðarborðið í morgun, hún fræddi okkur um efnahag Þýskalands og hvernig ríkisstjórnin er búin að "leysa" vandamálið með Arbeitslosigkeit (atvinnuleysi). Ef ég skildi hana rétt þá borga þeir fólki 1,50 evrur fyrir 8 tíma vinnudag (sem sagt bætur) en taka þau samt af skrá yfir atvinnulausa og segja svo: Haha sko hvað við erum sniðugir, tölur yfir atvinnulausa hafa lækkað, við erum búnir að redda þessu. Svo sagði hún okkur líka aðeins frá lífinu í DDR (Austur-Þýskaland). Hún er fædd og uppalin í Austur-Berlín og búin að búa á Karl-Marx-Allee í 40 ár svo hún veit hvað hún er að tala um. Svo bætti hún við í enda sögunnar: "Ich bin doch kein Kommunist wenn ihr das glaubt!" og hló. 

Ahaha já ég er að gleyma alveg ótrúlega fyndnu atviki. Í dag rak ég nefið inn í Galeria Kaufhof sem er risastór verslun hérna á Alexanderplatz, eiginlega Hagkaup nema "fancy" og sehr teuer (dýrt). Kemur þá ekki að mér ung dama og spyr hvort ég vilji taka þátt í Marktforschung (markaðskönnun). Uuu sagði henni að ég væri nú ekki þýsk en henni var das völlig egal (alveg sama) svo ég, ófær um að neita, tók þátt í markaðskönnun um Galeria Kaufhof sem ég hafði aldrei áður stigið fæti inn í. Þetta var ansi fyndið enda hlógum við báðar allan tímann, en ágætis æfing í þýsku :)

Jæja þetta er orðið ágætt, kannski best að reyna að læra e-ð fyrir svefninn...:/

Bis morgen,

Klára 

 p.s. Furðusjón dagsins: Sjónvarpsauglýsing fyrir lyf gegn Verstopfung (harðlífi). Mein Gott im lieber Himmel, þetta var bara of fyndin auglýsing!

 

 

 

 


In Berlin streikt man wenn man unzufrieden ist!

Hallo meine Lieblinge,

Ég sé að einhverjr apakettir þarna heima hafa gaman af ævintýrum mínum í Berlín svo ég ætla að halda áfram að gleðja hjörtu ykkar. Þetta er líka ágætis dagbók fyrir mig..ég myndi fljótt fara að rugla saman dögum ef ég skrái þetta ekki allt niður. 

Í dag var fyrsti skóladagurinn minn, sól skein í heiði og ég bara nokkuð sátt með lífið. Ég og Marianna fórum í skólann rétt fyrir 9, hann er í lítilli götu sem heitir Novalistraße. Ósköp notalegur og andrúmsloftið afslappað. Ég byrjaði á því að fara í Einstufungsprüfung (stöðupróf) og viðtal þar sem ég var spurð um hagi mína og þýskukunnáttu. Komst, að ég held, klakklaust í gegnum þetta því niðurstaðan var að ég var sett í Stufe C1 sem þýðir að ég er rosagóð í þýsku :) Allavega er ekki hægt að fara hærra en C2 svo ég kann greinilega eitthvað. Síðan var mér skellt inn í bekkinn minn sem samanstendur af Kínverjum, Könum, Svisslendingum og Frökkum. Þau eru öll búin að vera þarna lengi og vinna sig upp í C1...bara búið að taka Kínverjana 4 mánuði að komast á sama stig og ég er á eftir 3 ár af þýskunámi. Mæli því eindregið með því að fólk fari í svona málaskóla ef því langar að læra tungumálið almennilega. Annars fannst mér ég ekkert kunna þegar við fórum að vinna verkefni..ekki vön því að sitja í þýskutíma og finnast ég vitlaus :/ Orðaforðinn er pínuvandamál en ég er að vinna í þessu ;) En annars virðast bekkjarfélagar mínir fínasta fólk og góður andi í hópnum.9

Eftir skóla (kl. 12:30) fór ég í bókabúðaleiðangur niður Friedrichstraße (ein af verslunargötunum) til að kaupa kennslubókina. Eftir nokkur innlit fann ég loks risabúð sem ég get ekki munað nafnið á: Hogenbogel...Hugendopel eða e-ð svoleiðis.hehe. Þau áttu bara lesbókina en ég er svo dulleg að ég gat átt samræður við afgr.dömuna um þetta vandamál og pantað bókina sem ég get náð í á morgun :) Þetta flokkast algjörlega sem afrek dagsins. 

Veðrið í dag var æðislegt, algjört sumarveður og ég er ekki frá því að mitt föla fés hafi lifnað örlítið við í sólinni. Eftir búðaleiðangurinn fór ég á Gendarmenmarkt sem er gullfallegt torg með hvorki meira né minna en tveimur kirkjum andspænis hvorri annarri. Ég ætlaði síðan að líta inn í Der Dom, stærstu kirkjuna hérna, en þá var hún lokuð til kl. 18:00 og kannski ágætt því veðrið til þess fallið að vera úti og rölta. Ég er ekki enn búin að fara inn á þessu milljón söfn hérna í grenndinni en mun nota fimmtudagana í það, þá er frítt inn síðustu 4 klst. af opnunartímanum. Reyndar rak ég nefið inn á Guggenheimsafnið því þar var frítt inn í dag og þar að auki verk tengd Íslandi til sýningar. Get þá farið þangað á mánudögum ef heimþráin skyldi gera vart við sig :) 

Já, það er sko margt að gera í Berlín svo ég er fegin að hafa sex vikur framundan til að njóta hennar til hins ýtrasta. Líka fínt að hafa "ömmu" og Mariönnu sem geta gefið manni góð ráð um die Sehenswürdigkeiten (uuu þetta þýðir beint "þess vert að sjá það" en í orðabók merkisstaðir).

Hehe ætti kannski að útskýra fyrirsögnina :) Það er nefnilega svo að þeir sem starfa við samgöngukerfið hérna (og reyndar allir þeir sem starfa í opinberri þjónustu) eru óánægðir með kaup og kjör og hafa því farið í verkfall af og til að undanförnu. T.d. eru líkur á einu slíku á morgun svo þeir sem treysta á U-Bahn (subway-ið), strætó eða Straßenbahn eru í veseni. S-Bahn er ekki hluti af þessu batteríi svo fólk kemst einhvern veginn leiðar sinnar. Annars er das Fahrrad (reiðhjól) ansi vinsælt hér sem og tveir jafnfljótir. Þess vegna er ég alveg hætt að hræðast át á "Brötchen" daginn út og inn..ég labba örugglega meira en 10 km á dag.

Jæja þetta er orðið ágætt í dag, 

Die Lara

P.S. Jájá löngu hætt að telja og ég lofa að koma ekki með einn heim ;) Ég ætla samt að búa til nýtt p.s. grín sem ég kýs að nefna Furðusjón dagsins: Skærbleikur Trabant og "nýnasista" gengið sem heldur til á Alexanderplatz með stóran hóp af hundum. Þau er alltaf þarna þegar ég tölti yfir torgið sem er frekar oft...verrückte Leute (klikkað fólk).


 


Berliner Weiße mit Schuss

Annar dagur minn in der Stadt að kveldi kominn. Skyndilega er ég orðin 2 klst á undan ykkur greyjunum á Fróni því í dag var skipt yfir í sumartíma. Mér finnst mjög skemmtileg tilviljun að upplifa þetta..hviss bamm búmm og ein klst í lífi mínu horfin eins og veturinn.  Dagurinn í dag var annars mjög rólegur og ég bíð eiginlega bara eftir því að fara í skólann á morgun.

Í gær hitti ég hina píuna sem býr hérna, þó ekki herbergisfélagi minn. Hún heitir Marianna, er frá Kólumbíu og ósköp indæl. Eftir kvöldmat fór ég út með henni og ihre Freund von Russland (rússneska vini hennar), Anton heitir hann. Hann talar þýsku með sterkum rússneskum hreim sem í fyrstu var ansi erfitt að skilja. Þau voru annars bæði überrascht (hissa) á því hvað ég var dugleg að skilja og tala svona fyrsta daginn minn...mjög stolt af því að geta nokkurn veginn haldið uppi samræðum. Við fórum á ansi notalega rússneska Kneipe (knæpu) þar sem ég gerðist svo fræg að smakka Berliner weiße mit Schuss. Það er bjór (algjört piss) sem er bragðbættur með rauðu eða grænu sírópi sem gerir það að verkum að hann fær á sig rauðan eða grænan lit. Þar sem reykingar eru að sjálfsögðu leyfðar í Þýskalandi var knæpan þessi svo reykmettuð að mig var farið svíða í augun þegar leið á kvöldið! En lét það ekki á mig fá því þetta er hluti af menningunni og ég er hér til að upplifa hana. Frá þessari Kneipe héldum við á Potsdamer Platz (http://en.wikipedia.org/wiki/Potsdamer_Platz) og þaðan að Reichstag (þinghúsið)  Mjög gaman að upplifa Berlín á laugardagskvöldi og efast ég ekki um að margir hefðu gaman af því að skella sér út á lífið hér í borg. Mér finnst það alltaf jafn fyndið að fólk geti labbað inn í næstu sjoppu, keypt sér lottó og kippt einni viskíflösku með í leiðinni. Þetta var annars mjög áhugavert kvöld og gaman að vera búin að eignast einhverja kunningja :)

Í dag var veðrið með skárra móti (enda kominn sumartími) svo ég tók strunsarann á þetta og labbaði alla leið að Checkpoint Charlie. Það var eini staðurinn þar sem hægt var að fara á milli austurs og vesturs þegar múrinn stóð. Ansi áhugavert..skelli mér á safnið þar später (seinna). Ahh já á Potsdamer Platz eru líka leifar af múrnum..ótrúlega skrítið að sjá þetta svona mit eigenen Augen (með eigin augun). Er samt nokkuð ánægð með hvað ég er farin að rata mikið.. en það er svo sem ekki erfitt að rata á þessa aðalstaði. Líka auðvelt að komast heim, svo lengi sem ég sé Fernsehturm, hann gnæfir yfir allt svo ég labba bara í áttina að honum ;)

Etwas sonstiges (eitthvað fleira)..jájá "amma" dekrar við mann í bak og fyrir, þetta er eins og á 5 stjörnu hóteli. Í herberginu mínu er alltaf vatn, safi, ávextir og hún býr um rúmið mitt og alles. Þegar ég kom heim í dag var m.a.s. diskur með smákökum..hehe hún er ótrúlega indæl.  Hún býr líka til nesti fyrir mann fyrir skólann, m.a.s. líka Anton þó hann búi ekkert hérna. Svo er bara snilld að hlusta á hana skamma hundkvikindið: "Kessy, geh raus! Kessy, nein! Kessy, komm hier! Kessy!!!" 

Þýskir sjónvarpsþættir eru svo fyndnir að ég veit ekki hvað ég á að segja um þá. Ég sá þátt um daginn sem heitir "Ich Tarzan, du Jane" sem er nokkurs konar Idol nema pör syngja ástarlög og tilfinningin sem þau leggja í það skiptir gríðarlegu máli. Áðan var ég síðan að horfa á þátt sem heitir "Nur die Liebe zählt". Ég get nú eiginlega ekki sagt frá þeim þætti án þess að skella upp úr svo það verður saga til seinni tíma.

Jæja...ég er búin að vera rosa dugleg að blogga..ætla ekki að vera svona dugleg á næstunni en mér finnst samt afskaplega gaman að fræða ykkur um lífið í Deutschland :)

Bis später,

Lara 

p.s. Hehe, tala dagsins: ahaha löngu búin að tapa tölunni..hvað eruð þið að segja að Þjóðverjar séu ljótir? Þið hafið bara ekkert horft í kringum ykkur! ;)


Der erste Tag in Berlin :)

Jæja þá er litla loksins mætt á svæðið!

Fjúff, ferðin í gær byrjaði með látum. Tinna hringdi í mig um hádegið í þvílíkum æsingi og sagði að við yrðum að fara útúr bænum NÚNA þar sem vörubílstjórarnir (ekki vinsælir hjá mér í gær) væru að loka öllum götum í mótmælaskyni. Næsta hálftímann eða svo vorum við í móðursýkiskasti og óttuðumst að missa af fluginu og allt hvaðeina. En allt fór vel og við vorum komnar meira en tímanlega á völlinn. Það var eiginlega fyrst þá sem ég áttaði mig á því að ég væri virkilega að fara til Berlínar..mutterseelenallein! Mjög erfitt að kveðja Tinnu og satt best að segja nokkuð ógnvænlegt að fara aleinn í flugvélina. 

Var komin til Berlínar um átta leytið, allt orðið dimmt svo ég sá ekkert af borginni úr lofti nema endalaust ljósflæmi..voða flott samt.  Á flugvellinum beið mín ansi vinalegur Þjóðverji sem skutlaði mér heim á Karl-Marx-Allee. Hann talaði næstum stanslaust og mér til mikillar ánægju skildi ég meiri hlutann af því en gat lítið svarað þar sem málstöðvar mínar voru ekki enn tengdar á þýsku.

Húsið mitt er svona "Wohnblock" sem ég ímynda mér að sé frá tímum DDR...ef þið horfið á Goodbye Lenin þá bý ég í húsi eins og aðalpersónurnar þar..voða kósý. Christel (sem ég mun eflaust minnast sem þýsku ömmunnar minnar) tók vel á móti mér, herbergið mitt er voða notalegt, sófi, 2 hægindastólar, sjónvarp og allt sem maður þarf (og þarf jafnvel ekki). Herbergisfélagi minn kemur þó ekki fyrr en í næstu viku en Christel sagði að hún væri frá Sviss og talaði því líka þýsku. Sem sagt ekkert nema þýska á þessu heimili, ef ég verð ekki altalandi eftir þessar 6 vikur þá er ég nú meiri auminginn! Hundurinn (Kessy) er klikkaður, frekar ljótt kvikindi en annars ósköp góðlegt grey.  Ég fékk síðan að borða, "amma" vildi ekki heyra á það minnst að ég færi svöng í rúmið. Ég skellti næstum uppúr þegar ég sá matardiskinn..ef þetta var ekki þýskur matur þá veit ég ekki hvað. Fullur diskur af kartöflum, rósakáli og einhverju kjötdóti í brúnni sósu. Ég torgaði þessu að sjálfsögðu ekki öllu en tróð mig út minnug þess sem Elín hafði sagt um gamla Þjóðverja og að leifa mat :/ Mittismálið mun því sennilega ekki minnka þessar 6 vikur..hehe

Dagurinn í dag hefur verið rólegur. Ég hef bara verið að skoða mig um og átta mig aðeins á borginni. Morgunmaturinn samanstóð af hverju? Jújú, "Brötchen", jógúrti og te. Fékk sem betur fer ekki "Wurst" í dag ;) Ég hélt síðan út og rölti að Alexanderplatz sem er bara í ca. 5 mín fjarlægð. Sá Þar er Fernsehturm og alls konar sniðugt dótarí, Rotes Rathaus ofl. Allt mjög merkilegt. Búin að kaupa Fahrkarte fyrir næsta mánuðinn svo ég get hoppað um borð í S-Bahn, U-Bahn, strætó og alles fyrir 70 evrur á mánuði. Það þykir dýrt hér en ég er nokkuð sátt miðað við að í Rvk. þarf að borga svipaðan pening bara fyrir strætó! Ég fór síðan og rölti á Unter den Linden, ótrúlega gaman að vera á stað sem maður lærði um í þýskutímum í den. Mikið af fallegum byggingum en margar af þeim eru í viðgerð svo vinnupallar eru algeng sjón hérna auk byggingarkrana og þess háttar. Labbaði alla leið að Brandenburger Tor..ansi langt en samt ekkert svo miðað við að þetta er risaborg.  Veðrið í dag hefur ekki verið upp á marga fiska, nokkuð íslenskt, rigning og skúrir og skítkaldur vindur. Kom síðan heim hundblaut eftir 3 tíma göngutúr en nokkuð ánægð með heimaborg mína næstu 6 vikurnar. Verð samt að viðurkenna að ég er frekar einmana eins og er en það lagast allt þegar ég verð byrjuð í skólanum og herbergisfélaginn mættur á svæðið :) Það örlar þó ekki á Heimweh (heimþrá), ég er þvílíkt hamingjusöm að vera hér en það væri gott að hafa einhvern til að rölta með á Unter den Linden :)

Netið komst síðan í gagnið áðan..okkur Christel gekk lítið að setja það inn enda álíka tæknifatlaðar þó muni rúmum 40 árum í aldri :/ Held það segi nokkuð um mína tæknikunnáttu frekar en hennar. Endaði allavega á því að Christel hringdi í "Enkelsohn" sinn sem var svo elskulegur að skreppa hingað og bjarga málunum. Get því verið dugleg að blogga næstu vikur.

Ætli þetta dugi ekki í dag, ætla líklega að rölta yfir á Museum Insel á morgun og skoða eitthvað af þessum milljón söfnum hér í borg!

Tschüss,

Lára

p.s. Ég lofaði Systu að "keep count" (þú veist hvað ég meina). Tala dagsins í dag er: 5 (þ.á.m. der Enkelsohn;))


Á morgun!

Jæja,

Ekki enn komin á áfangastað og er satt best að segja orðin ansi óþreyjufull.

Fékk samt fregnir af dvalarstað mínum í dag og ég er aldeilis ánægð með hann. Ég mun dvelja hjá eldri konu sem býr á Karl-Marx-Allee sem er nú eiginlega bara í miðbæ Berlínar. Gæti varla verið betra! Ætti líka að geta lært ýmislegt af þessari alte Frau sem hefur sennilega upplifað margt merkilegt enda fædd 1941.  

Allavega, skrifa skemmtilegri færslur þegar ég verð mætt á svæðið :/

Tschüss,

Lára

p.s. Mein Adresse ist:

Karl-Marx-Allee 23 (paterre)

10178 Berlin (Mitte) 


Nur 3 Tage!

Góðan daginn gott fólk! 

Þar sem ég held af landi brott eftir þrjá daga ákvað ég að nauðsynlegt væri að gerast bloggari svo mínir nánustu gætu fylgst með ævintýrum mínum þessar sex vikur sem ég verð fjarri þeim.  Ég er á leiðinni til Berlínar þar sem ég mun stunda þýskunám, kynnast landi og þjóð og jafnvel sletta aðeins úr klaufunum eins og mér einni er lagið. Hef nú ekki margt að segja eins og er þar sem ég sit enn heima á Fróni en ætla að vera dugleg að skella inn gamansögum frá Deutschland næstu vikurnar. 

Bis bald,

Lára klára


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband